Frönsk innrás í Þýskaland

Bræðurnir Nikola og Luka verða í eldlínunni með Paris SG …
Bræðurnir Nikola og Luka verða í eldlínunni með Paris SG sem gæti orðið Evópumeistari í handknattleik karla á morgun. AFP

Annað árið í röð er ekkert þýskt félagslið í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik, en úrslitahelgi keppninnar, fjögur síðustu, fer fram í Lanxess-Arena í Köln í dag og á morgun. Þess í stað eru þrjú frönsk félagslið eftir í keppninni auk Vardar frá Makedóníu, sigurliðs Meistaradeildarinnar á síðasta ári. Segja má að Frakkar geri innrás í Þýskaland þessa dagana.

Um er að ræða frönsku liðin Paris SG, sem lék til úrslita við Vardar í Meistaradeildinni fyrir ári, Nantes sem aldrei hefur náð svo langt í meistarakeppni Evrópu og Montpellier sem vann Meistaradeild Evrópu fyrir 15 árum og er enn undir stjórn sama þjálfara og þá, Patrice Canayer. Þrír leikmenn sigurliðs Montpellier fyrir 15 árum verða í eldlínunni í Lanxess-Arena um helgina.

Hornamaðurinn Michael Guigou leikur enn með liðinu en markvörðurinn Thierry Omeyer og skyttan Nikola Karabatic eru í herbúðum Parísarliðsins.

Anton og Jónas dæma

Fyrri undanúrslitaleikurinn í dag verður á milli Nantes og Paris SG en í þeim síðari eigast við Evrópumeistarar Vardar og Montpellier. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma þá viðureign. Flautað verður til leiks klukkan 13.15 og 16 báða dagana.

Frá því að ákveðið var að leika undanúrslit og úrslit keppninnar á einni helgi frá og með vorinu 2010 hefur það ekki gerst fyrr að þrjú keppnisliðanna sem eftir eru í undanúrslitum komi frá sama landinu. Níu ár eru síðan þrjú þýsk lið, Kiel, Rhein-Neckar Löwen og HSV Hamburg, tryggðu sér sæti í úrslitum Meistaradeildarinnar, ári áður en úrslitahelgin með fjórum síðustu var tekin upp. Fjórða liðið í undanúrslitum fyrir níu árum var Ciudad Real með Ólaf Stefánsson í fararbroddi sem vann Kiel með samtals eins marks mun í tveimur úrslitaleikjum, 67:66, eftir stórbrotna frammistöðu Ólafs í síðari leiknum.

Undirstrikar styrk

Staða frönsku liðanna þykir undirstrika styrk frönsku 1. deildarinnar sem hefur aukist mjög á síðustu árum. Fleiri af bestu leikmönnum Evrópu hafa á undanförnum árum gengið til liðs við frönsk félagslið auk þess sem það heyrir orðið til undantekninga ef franskir landsliðsmenn leika utan heimalandsins.

Þýsk félagslið hafa dregist aftur úr í samkeppni við allra bestu félagslið Evrópu. Kemur þar tvennt til. Annars vegar hafa þýsku liðin ekki úr eins miklum fjármunum að spila og allra stærstu lið Evrópu, ekki síst þau í austurhluta Evrópu. Hins vegar er meira leikjaálag á leikmenn fremstu liðanna í Þýskalandi, m.a. vegna þess að þýska 1. deildin er skipuð 18 liðum sem er að jafnað fjórum liðum fleira en í mörgum samkeppnislöndum.

Ágreiningur kristallast

Einnig þykir staða þýsku liðanna í Meistaradeildinni kristalla ágreining sem ríkir á milli þýsku deildarkeppninnar og Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Samkomulag hefur m.a. ekki tekist á milli þeirra um leikdaga í keppninni sem varð þess valdandi að þýsku meistararnir Rhein-Neckar Löwen gáfu Meistaradeildina upp á bátinn þegar kom að 16-liða úrslitum. Þá var fyrri leikur liðsins við Póllandsmeistara Vive Kielce settur á innan við sólarhring eftir viðureign Kiel og Löwen í þýsku 1.deildinni. Löwen sendi varalið sitt til Póllands í mótmælaskyni og tapað stórt fyrir vikið.

Enn situr allt fast í deilu þýsku deildarkeppninnar og EHF. Liðkist ekki milli deilenda fyrir næsta keppnistímabil má reikna með frekari árekstrum og að þýsku liðin verði ekki jafnáberandi í keppninni fyrir vikið.

Engir Íslendingar

Ekki aðeins þykir það sæta tíðindum að ekkert þýskt félagslið tekur þátt í úrslitahelginni annað árið í röð heldur er enginn íslenskur þjálfara í eldlínunni að þessu sinn. Þetta er í annað sinn á undanförnum tíu árum sem íslenskur þjálfari er ekki við stjórnvölinn hjá einhverju liðanna fjögurra í undanúrslitum. Einnig er þetta í fyrsta sinn í áratug sem enginn íslenskur handknattleiksmaður er í einhverju af liðunum fjórum sem eru í undanúrslitum.  

Noka Serdarusic, sem vann Meistaradeild Evrópu sem þjálfari Kiel fyrir 11 árum, kveður PSG eftir leikina í Köln um helgina. Undir hans stjórn tapaði PSG úrslitaleik Meistaradeildar fyrir ári. Standi liðið uppi sem sigurvegari á sunnudagskvöldið mun hann verða þriðji þjálfarinn til þess að stýra liði til sigurs í keppninni og feta þar með í fótspor Alfreðs Gíslasonar sem hefur unnið Meistaradeildina sem þjálfari Magdeburg 2002 og Kiel 2010 og 2012 og Talant Djushebaev með Ciudad Real 2006, 2008 og 2009 og Vive Kielce fyrir tveimur árum.

Karabatic einstakur

Þess má til gamans einnig geta að ef Paris SG vinnur Meistaradeildina a morgun verður Nikola Karabatic fyrsti handknattleiksmaðurinn til þess að vinna keppnina með fjórum liðum. Hann lék með Montpellier og skoraði m.a. 17 mörk í úrslitaleikjunum tveimur þegar liðið vann Portland San Antonio 2004. Þremur árum síðar var Karabatic í sigurliði Kiel. Árið 2015 vann Karabatic Meistaradeildina með Barcelona og var þá m.a. samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert