Þetta tekur aðeins lengri tíma

Sverre Jakobsson
Sverre Jakobsson Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég er að mörgu leyti mjög ánægður með liðið mitt. Við erum á réttri leið með margt en á sama tíma eru vissir hlutir sem við þurfum að laga, það tekur aðeins meiri tíma," sagði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, í samtali við mbl.is eftir 31:26-tap fyrir Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 

Haukar voru mest sjö mörkum yfir í seinni hálfleik, en Akureyri minnkaði muninn í þrjú mörk. Nær komust lærisveinar Sverre hins vegar ekki. 

„Það vantaði skynsemi. Tæknifeilarnir voru rosalega dýrir. Við minnkuðum þetta í þrjú og augnablikið var með okkur, þá eigum við að vera skynsamari. Við vorum að missa boltann klaufalega og fá á okkur hraðaupphlaup og stundum mark í andlitið. Það svíður mest."

Marius Aleksejev, markmaður Akureyrar, fékk beint rautt spjald fyrir brot eftir að hann fékk á sig mark. 

„Markmaðurinn minn segir að hann hafi verið að verja og verið í markmannshreyfingu. Eitthvað gerist svo í framhaldinu sem ég veit ekki og get því ekki tjáð mig um það," sagði Sverre. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert