HK kom til baka gegn KA/Þór

Sigríður Hauksdóttir sækir að marki KA/Þórs í Digranesinu í dag.
Sigríður Hauksdóttir sækir að marki KA/Þórs í Digranesinu í dag. mbl.is/Hari

Tinna Sól Björgvinsdóttir fór mikinn þegar HK vann 20:19-sigur gegn KA/Þór í 6. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag en Tinna skoraði fimm mörk í leiknum. Staðan í hálfleik var 12:8, KA/Þór í vil, og virtist allt stefna í sigur Akureyringa þegar kortér var eftir af leiknum en þær höfðu þá fjögurra marka forystu, 18:14.

Þá vöknuðu HK-ingar og þeim tókst að jafna metin þegar skammt var eftir af leiknum. Sigurmark leiksins kom þegar tæp hálf mínúta var til leiksloka og HK fagnaði mikilvægum sigri. Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir HK en Hulda Bryndís Stefánsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með fimm mörk.

Þær Martha Hermannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir skoruðu báðar fjögur mörk í liði KA/Þórs sem er í fjórða sæti deildarinnar með 6 stig en HK er komið í fimmta sætið og er með 6 stig, líkt og KA/Þór eftir fyrstu sex umferðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert