ÍR er enn óstöðvandi

Ólöf Ásta Arnþórsdóttir fór á kostum fyrir Fjölni í kvöld …
Ólöf Ásta Arnþórsdóttir fór á kostum fyrir Fjölni í kvöld en það dugði skammt. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR hélt í kvöld áfram sigurgöngu sinni í 1. deild kvenna í handknattleik, Grill 66-deildinni, og lagði nú Gróttu að velli á heimavelli sínum í Austurbergi, 29:21.

ÍR er því áfram með fullt hús stiga, sextán af sextán mögulegum eftir fyrstu átta leikina. Grótta, sem féll úr úrvalsdeildinni, er hinsvegar búin að tapa fimm af fyrstu átta leikjum sínum og er með 6 stig. Karen Tinna Demian skoraði 7 mörk fyrir ÍR og Silja Ísberg 5 en Katrín Helga Sigurbergsdóttir skoraði 8 mörk fyrir Gróttu og Tinna Valgerður Gísladóttir 5.

Ólöf Ásta Arnþórsdóttir átti stórleik fyrir Fjölni og skoraði 14 mörk, en það dugði ekki til gegn Fram U sem vann leikinn 30:26. Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Framkonur sem eru í öðru sæti, fjórum stigum á eftir ÍR. Ólöf Ásta og liðsfélagar hennar úr Grafarvoginum eru hins vegar með tvö stig í næst neðsta sæti.

Í þriðja sæti, með jafnmörg stig og Fram U, situr Afturelding eftir sigur á Fylki í kvöld 24:19. Kiyo Inage skoraði átta mörk fyrir Aftureldingu eins og Hrafnhildur Irma Jónsdóttir fyrir Fylki, sem er með níu stig um miðja deild.

FH vann auðveldan sigur á Víkingi í Víkinni, 28:15, eftir að hafa verið 14:9 yfir í hálfleik. Ragnheiður Tómasdóttir skoraði 6 mörk fyrir FH, Britney Cots, Hildur Guðjónsdóttir og Sylvía Björt Blöndal 4 mörk hver. Hjá Víkingi voru Katrín Guðmundsdóttir og Steinunn Birta Haraldsdóttir markahæstar með 4 mörk hvor.

Stjarnan U er eitt liða enn án sigurs eftir tap fyrir HK U í kvöld, 37:26, eftir að hafa verið þó aðeins einu marki undir í hálfleik 16:15. Karen Kristinsdóttir skoraði átta mörk fyrir HK sem er í sjöunda sæti með átta stig en tólf mörk frá Freydísi Jöru Þórsdóttur dugðu ekki til fyrir Garðbæinga.

Úrslit kvöldsins:

Víkingur – FH 15:28
Afturelding – Fylkir 24:19
HK U – Stjarnan U 37:26
ÍR – Grótta 29:21
Fram U – Fjölnir 30:26

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert