Frammistaðan meiri vonbrigði en úrslitin

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, fer yfir málin með sínum lærisveinum.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, fer yfir málin með sínum lærisveinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er fyrst og fremst vonsvikinn yfir því hvernig menn mættu til leiks,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, daufur í bragði eftir að lið hans féll úr keppni í Coca Cola-bikarnum í handknattleik karla í kvöld eftir naumt tap fyrir Aftureldingu, 25:24, þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndu viðureignarinnar.

„Menn voru bara ekki klárir í slaginn í upphafi leiksins og því fór sem fór. Aftureldingarliðið var betra en við á öllum sviðum leiksins að þessu sinni þótt þeir hafi skorað flautumark og við nærri því búnir að stela framlengingu. Ljósi punkturinn hjá okkur er Andri Scheving markvörður sem kom okkur inn í leikinn þegar á leið síðari hálfleikinn eftir að við höfðum lent sex mörkum undir.  En fyrst og fremst er það svekkjandi að sjá hvernig við mættum til leiks. Það er ekki hægt að svekkja sig á úrslitum leiksins vegna þess að betra liðið fór með sigur úr býtum þótt litlu hafi munað í blálok leiksins. Frammistaða okkar lengst af verðskuldaði ekki að við fengjum meira úr viðureigninni en raun varð á,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert