Fyrsti sigur Kóreu kom gegn Degi

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans þurftu að sætta sig við …
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans þurftu að sætta sig við tap. AFP

Kórea vann sinn fyrsta sigur á HM karla í handbolta í dag er liðið lagði lærisveina Dags Sigurðssonar í Japan, 27:25 í Kaupmannahöfn. Lærisveinar Dags eru búnir að tapa öllum sex leikjum sínum á mótinu. 

Japan byrjaði betur og var yfir framan af. Staðan í hálfleik var 14:12, Japan í vil. Kórea byrjaði betur í seinni hálfleik og jafnaði í 15:15 og eftir það var leikurinn jafn og spennandi allt til loka.

Kórea var hins vegar sterkari í blálokin og keppir Dagur og Japan við annað hvort Sádí-Arabíu eða Angóla um 23. sæti. Jeongu Kang skoraði sjö mörk fyrir Kóreu og Remi Anri Doi átti stórleik hjá Japan og skoraði tíu mörk.

Rússar spila annað hvort við Síle eða Katar um 13. sæti mótsins eftir 30:28-sigur á Makedóníu í Köln í dag. Rússarnir voru yfir nánast allan tímann og var staðan 27:22 skömmu fyrir leikslok. Makedónía minnkaði muninn en sigur Rússlands var sannfærandi. 

Dmitrii Zhitnikov skoraði átta mörk fyrir Rússland og Kiril Lazarov gerði níu fyrir Makedóníu, sem spilar um 15. sæti mótsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert