Fjögur geta komist í undanúrslit í dag

Bjarni Ófeigur Valdimarsson úr FH Kristján Örn Kristjánsson úr ÍBV …
Bjarni Ófeigur Valdimarsson úr FH Kristján Örn Kristjánsson úr ÍBV mætast í Eyjum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag og kvöld fara fram leikir númer tvö í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik og þar fá Valur, Haukar, ÍBV og Selfoss tækifæri til að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Tvo sigra þarf til að komast í undanúrslitin.

Afturelding tekur á móti Val að Varmá klukkan 14. Valur vann fyrsta leikinn á Hlíðarenda á laugardaginn, 28:25, eftir framlengingu.

Stjarnan fær Hauka í heimsókn í TM-höllina í Garðabæ klukkan 15. Haukar unnu öruggan sigur í fyrsta leiknum á Ásvöllum á laugardaginn, 28:19.

ÍBV tekur á móti FH í Vestmannaeyjum klukkan 17. Eyjamenn gerðu góða ferð í Hafnarfjörð á laugardaginn og lögðu þar FH að velli á sannfærandi hátt, 28:23. Þeir fá því gott tækifæri á heimavelli til að ljúka einvíginu.

Loks eigast ÍR og Selfoss við í Austurbergi klukkan 19.30. Selfoss vann mjög nauman sigur á sínum heimavelli, 27:26, á laugardaginn.

Ef til oddaleikja kemur þá fara þeir fram á miðvikudagskvöldið klukkan 19.30 og þá eiga Valur, Haukar, FH og Selfoss heimaleikina.

Undanúrslitin hefjast síðan mánudagskvöldið 29. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert