Síðari hálfleikur var erfiður

Daníel Matthíasson skorar eitt af fjórum mörkum sínum fyrir KA …
Daníel Matthíasson skorar eitt af fjórum mörkum sínum fyrir KA gegn Val í Origo-höllinni í kvöld. mbl.is/Hari

„Til þess að vinna Val á heimavelli þeirra hefðum við þurft að ná betri leik, betri nýtingu og öflugri varnarleik og markvörslu,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, annar þjálfari karlaliðs KA, eftir átta marka tap fyrir Val, 31:23, í upphafsleik 10. umferðar Olís-deildar karla í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

KA lenti snemma undir í leiknum en tókst að koma til baka og  jafna metin og vera aðeins tveimur mörkum undir í hálfleik eftir að hafa verið um skeið fimm mörkum undir.

„Í hálfleik vorum við búnir að berja okkur inn í leikinn eftir að hafa lent illa undir snemma leiksins í kjölfar slæms sóknarleiks. Við vorum ánægðir með að vera aðeins tveimur mörkum undir í hálfleik. En því miður þá áttum við í erfiðleikum með að opna Valsvörnina í síðari hálfleik. Valsvörnin var mjög góð auk þess sem markvarslan hjá þeim var geggjuð til viðbótar sem við klikkuðum á þremur vitaköstum. Síðari hálfleikur var okkur erfiður,“ sagði Jónatan og bætti við.

„Takturinn var lélegur hjá okkur í sókninni. Við ætluðum að hreyfa Valsvörnina og koma sendingum inn á línuna en það tókst ekki sem skyldi. Við náðum ekki fram því sem við vildum, en strákarnir voru að reyna allt til leiksloka en það dugði ekki. Síðan duttum við varnarlega þegar kom fram í síðari hluta síðari hálfleiks,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, annar þjálfara karlaliðs KA í handknattleik, í samtali við mbl.is í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert