Toppliðin ekki í vandræðum

Sólveig Lára Kjærnested sækir að Ragnheiði Júlíusdóttur og Steinunni Björnsdóttur …
Sólveig Lára Kjærnested sækir að Ragnheiði Júlíusdóttur og Steinunni Björnsdóttur í leik Stjörnunnar og Fram í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

12. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik fór fram í dag en allir fjórir leikirnir voru spilaðir á sama tíma. Framarar eru áfram á toppnum eftir öruggan sigur á Stjörnunni og Valur er skammt undan í öðru sætinu eftir stórsigur á KA/Þór.

Eftir jafnan fyrri hálfleik í TM-höllinni í Garðabæ tók topplið Framara á rás. Staðan var 15:13 í hléinu, gestunum í vil. Framarar skoruðu svo fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleik og litu ekki til baka í öruggum sigri. Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst Framara með átta mörk fyrir Safamýrarliðið og Steinunn Björnsdóttir og Karen Knútsdóttir skoruðu fimm mörk hvor. Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði átta mörk fyrir heimakonur og næst var Rakel Dögg Bragadóttir með sjö.

Þá unnu Valskonur afar þægilegan 32:16-sigur á KA/Þór á Hlíðarenda en staðan var orðin 18:7 í hálfleik. Íris Björk Símonardóttir átti stórleik í marki Vals, hún varði 22 skot af 35 eða 63% alls. Sandra Erlingsdóttir var markahæst með sex mörk og þær Auður Ester Gestsdóttir og Lovísa Thompson skoruðu fimm mörk hvor.

Haukar og ÍBV gerðu jafntefli á Ásvöllum, 22:22, en liðin eru í 6. og 7. sæti. Haukar eru með níu stig og Eyjakonur sjö. Haukakonur voru mest þremur mörkum yfir en héldu þó forystu sinni ekki til loka. Guðrún Erla Bjarnadóttir skoraði átta mörk fyrir Hauka en Sunna Jónsdóttir gerði sjö mörk fyrir ÍBV.

Þá vann HK 33:23-sigur á botnliði Aftureldingar sem er enn án stiga. HK fer upp í 12 stig í fjórða sætinu og er nú þremur stigum á eftir Stjörnunni. Sigríður Hauksdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoruðu báðar átta mörk fyrir HK í Kórnum en Telma Rut Frímannsdóttir skoraði átta mörk fyrir gestina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert