Ógeðslega gaman að vera hjá HK

Jóhann Birgir Ingvarsson var sterkur hjá FH.
Jóhann Birgir Ingvarsson var sterkur hjá FH. Ljósmynd/Haraldur Jónasson/Hari

Jóhann Birgir Ingvarsson átti góðan leik fyrir FH í 32:28-sigri á Aftureldingu á útivelli í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Afturelding var betri aðilinn í fyrri hálfleik, en FH-ingar mun sterkari í þeim seinni. 

„Við mættum bara ekki til leiks í fyrri hálfleik. Það var enn þá einhver pása í okkur. Við náðum að laga stöðuna á síðustu þremur mínútum fyrri hálfleiks og koma okkur aftur inn í leikinn. Það gerði seinni hálfleikinn auðveldari. Við áttum mikið inni í seinni og það kom fram,“ sagði Jóhann í samtali við mbl.is. 

Aftureldingu gekk bölvanlega að skora í seinni hálfleik, en liðið skoraði 17 mörk í fyrri hálfleik og fann oft og tíðum auðveldar leiðir fram hjá vörn FH-inga. 

„Við breyttum yfir í 3-2-1 vörn. Þeir eru stórir og við mættum þeim framarlega. Birkir [Benediktsson] fílar t.d. ekki að láta mæta sér. Við vorum miklu harðari og börðum þá út úr leiknum. Það virkaði,“ sagði Jóhann og játaði svo að FH lagði sérstaka áherslu á að stöðva Birki. „Það sást kannski því allir aðrir löbbuðu bara í gegn,“ sagði Jóhann og hló.

Jóhann er nýkominn aftur til FH, en var að láni hjá HK fyrri hluta vetrar. 

„Það var geðveikt að vera hjá HK. Það var ógeðslega gaman að vera þar og vel tekið á móti manni. Ég fékk að spila mig í gang og fékk sjálfstraust og vonandi verður framhaldið áfram svona hjá FH. Mér leið vel á vellinum í dag og betur en ég bjóst við,“ sagði Jóhann Birgir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert