Vorum hársbreidd frá því

Brynjólfur, lengst til vinstri, fylgist með af bekknum í kvöld.
Brynjólfur, lengst til vinstri, fylgist með af bekknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Brynjólfur Snær Brynjólfsson, hornamaður Hauka, í samtali við mbl.is eftir að hann og liðsfélagar hans þurftu að sætta sig við silfurverðlaun á Íslandsmótinu í handbolta, eftir tap fyrir ÍBV á útivelli í oddaleik í kvöld.

ÍBV vann tvo fyrstu leikina í einvíginu, en Haukar svöruðu með tveimur sigrum í röð. ÍBV var hins vegar með undirtökin nánast allan leikinn í kvöld.

„Eftir tvo góða leiki náðum við okkur ekki á strik í kvöld og því fór sem fór. Við fundum ekki nógu góðar lausnir á 5-1 á kanti vörninni hjá þeim. Við áttum í erfiðleikum í sókninni og gerðum of mikið af mistökum. Við vorum ekki nógu beittir,“ viðurkenndi Brynjólfur.

Tímabil Hauka hefur verið skrautlegt, því liðið byrjaði afar illa og var um tíma í fallbaráttu. Að lokum hafnaði Hafnarfjarðarliðið í áttunda sæti, rétt komst í úrslitakeppnina en lék oddaleik um sjálfan titilinn í kvöld.

„Við sýnum þvílíkan karakter í þessu einvígi og þessari úrslitakeppni. Okkur var spáð 0:2 á móti Val. Við snúðum því við. Svo mættum við Aftureldingu og þá var okkur aftur spáð tapi og snúðum því við. Við vorum svo hársbreidd frá því í dag.

Mér fannst við verða þéttari og öflugri eftir áramót. Það kom einn og einn skellur en það var stígandi í okkur. Þegar úrslitakeppnin byrjaði fann ég svo einhvern anda í liðinu og við ætluðum okkur alvöruhluti. Við sýndum okkar fólki að við erum með alvörulið,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert