Þetta er fyrir neðan allar hellur

Aron Dagur Pálsson sækir að marki Fram í dag.
Aron Dagur Pálsson sækir að marki Fram í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Við getum ekki boðið upp á þetta. Ekki sjálfum okkur, öðrum Framörum né fólki sem horfir á leikinn,” sagði Einar Jónsson eftir 41:23 tap gegn bikarmeisturum Val á Hlíðarenda í fyrstu umferð í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld.

„Við vorum bara hörmulegir. Við vissum að þetta yrði erfitt verkefni en bara eftir tíu mínútur þá sá maður í hvað stefndi. Það plan sem við höfðum var bara fokið út í verður og vind. Varnaleikinn stóðum við ágætlega í fyrri hálfleik en markvarsla, hlaup til baka, ákvarðanatökur og sóknarleikur í fyrri hálfleik var bara djók,” sagði Einar í viðtali við mbl.is eftir leikinn. 

Útlitið var slæmt í fyrri hálfleik og spilamennska Framara bættist ekki í seinni.

“Það var ekkert að marka þennan seinni hálfleik, þetta var bara búið og það var ekkert hægt að gera,” sagði Einar en staðan var 22:11 í hálfleik. 

“Við vorum bara fyrst og fremst óánægðir með hugafarið hjá okkur og ætluðum að koma með betra hugarfar inn í seinni hálfleik en gerðum það ekki. Við vorum bara illa stefndir í þennan leik og vorum það í 60 mínútur.

Við töluðum mikið um það í hálfleik að klára leikinn með sóma. Við vissum að þetta yrði brekka í en hugarfarið var mjög lélegt og þetta er bara ekki boðlegt í meistaraflokki.”

Liðin mætast aftur á laugardaginn og ljóst er að það verður erfiður leikur.

„Þetta var fyrir neðan allar hellur í dag og við þurfum að grafa djúpt og skila næsta leik með meiri sóma en við gerðum í dag,” sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert