Eiga til að fara yfir línuna í þessum leikjum

Mario Mandzukic og Kári Árnason í baráttu í umspili fyrir …
Mario Mandzukic og Kári Árnason í baráttu í umspili fyrir HM 2014. Mandzukic sá rautt í seinni umspilsleiknum en Króatía vann og fór á HM. mbl.is/Ómar

Ísland og Króatía hafa mæst fjórum sinnum á síðustu árum og rauða spjaldið hefur farið á loft í þremur þessara leikja. Liðin mætast á ný í Rostov á þriðjudag í lokaumferð D-riðils HM karla í knattspyrnu.

Kári Árnason og Emil Hallfreðsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Kabardinka í dag og mbl.is spurði þá hvort einhver sérstök skýring væri á því að rauða spjaldið færi gjarnan á loft í rimmum Íslendinga og Króata. Ivan Perisic fékk rautt í lokin á 2:0-sigri Króata í undankeppni heimsmeistaramótsins í Rússlandi, og Mario Mandzukic í fyrri hálfleik í öðrum 2:0-sigri Króata, í umspili fyrir HM 2014. Ólafur Ingi Skúlason sá rautt í 0:0-jafntefli á Laugardalsvelli í fyrri umspilsleiknum fyrir HM 2014.

„Þetta er nú ekki eitthvað sem við höfum spáð í en þegar þú nefnir þetta þá er þetta kannski skiljanlegt. Það hefur alltaf verið allt undir þegar þessi lið hafa mætt, fyrst var það í umspilinu fyrir HM 2014, og þá eiga menn það til að spila alveg að línunni, og fara stundum yfir hana. Við höfum nú bara fengið eitt rautt, og hann varð eiginlega að taka það á sig. Ef að það hjálpar liðinu eru menn alveg tilbúnir að taka rautt spjald,“ sagði Kári.

Nú er ekki minna undir en í síðustu leikjum liðanna. Ísland þarf sigur til að geta mögulega komist áfram í 16-liða úrslit en Króatía þarf stig til að vera öruggt um að halda efsta sæti D-riðilsins.

Emil svaraði því svo hvort leikmenn væru meðvitaðir um það að ef til að mynda Ísland og Argentína yrðu hnífjöfn að stigum í 2.-3. sæti, með sömu markatölu, færi það lið áfram sem fengið hefði færri spjöld í mótinu. Emil sagði það ekki koma til með að hafa áhrif á leik íslenska liðsins:

„Spjöld eru bara hluti af leiknum, og ég held að það sé enginn að pæla mikið í því. Það er bara fyrir okkur að duga eða drepast á þriðjudaginn. Þeir sem þurfa að taka spjöld taka spjöld, og það kemur bara í ljós eftir á hvaða afleiðingar það hefur,“ sagði Emil.

Gott að vera vitur eftir á

Ísland hefur enn ekki fengið eina einustu áminningu í leikjum sínum tveimur til þessa á HM, og leikmennirnir voru spurðir hvort að ef til vill hefðu komið atvik í leiknum við Nígeríu þar sem einhver hefði hreinlega átt að brjóta á andstæðingnum og fá gult spjald, til að koma í veg fyrir mark.

„Eftir að hafa séð þetta, þá sé ég ekki að einhver hefði getað tekið gult spjald í aðdraganda fyrra marksins. Auðvitað er gott að vera vitur eftir á, og að sjálfsögðu á að taka leikmann niður ef hann er að fara að skora, en það er auðvelt að segja það. Ég er ekki alveg viss,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert