Horft til framtíðar

Þeir Luka Karabatic og Ludovic Fabregas stöðva Elvar Örn Jónsson …
Þeir Luka Karabatic og Ludovic Fabregas stöðva Elvar Örn Jónsson í leiknum í gær. AFP

Yngsta landslið sem Ísland hefur sent til leiks á heimsmeistaramóti tapaði með reisn fyrir heimsmeisturum Frakka, 31:22, í öðrum leik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Lanxess-Arena í Köln í Þýskalandi í gærkvöld. Meðalaldur liðsins er 23,6 ár og lengi vel var meðalaldur þeirra sem báru leik Íslands uppi ekki nema ríflega 20 ár, þar voru þrír frændur austan af Selfossi.

Ungstirnið Haukur Þrastarson lék stærstan hluta leiksins sem leikstjórnandi. Hann skoraði tvö mörk úr þremur skotum og vakti frammistaða hans athygli meðal fólks í Lanxess-Arena, jafnt áhorfenda sem fjölmiðlamanna.

Franska liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11. Þriðji og síðasti leikur Íslands í milliriðlakeppninni verður við Brasilíumenn á miðvikudag, einnig í Köln.

Leiksins í gærkvöldi verður minnst fyrir að vera fyrsti stórmótsleikur Hauks sem talinn er mesta efni á handknattleikssviði karla í Evrópu. Einnig verður hans minnst vegna þess liðs sem Guðmundur Þórður stillti upp sem er það yngsta sem leikið hefur fyrir Ísland á HM. Svo má ekki gleyma því að þrír náskyldir frændur báru á köflum uppi sóknarleik íslenska liðsins, Teitur Örn Einarsson, Elvar Örn Jónsson og fyrrnefndur Haukur. Þeir þekkjast vel utan vallar sem innan og voru burðarásar liðs Selfoss á síðasta keppnistímabili.

Eftir að Guðmundur Þórður varð að gera breytingar á hópnum í gærmorgun vegna meiðsla Arons Pálmarssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar var ekkert annað í spilunum fyrir hann en að tefla fram þessu ungum leikmönnum og fleirum sem hann er með í hóp sínum. Hann átti ekki annars úrkosti og hikaði ekki við.

Nánar er fjallað um leik Íslands og Frakklands í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert