Hefur vaxið fiskur um hrygg

Brasilíumenn fagna fræknum sigri á Króatíu á HM.
Brasilíumenn fagna fræknum sigri á Króatíu á HM. AFP

Landslið Brasilíu, sem íslenska landsliðið í handknattleik karla mætir í lokaleik sínum á HM kl. 14.30 í dag, hefur fram undir þetta ekki verið tekið alvarlega sem handknattleikslið á alþjóðlegan mælikvarða. Brasilíumenn unnu sér fyrst inn keppnisrétt á HM á Íslandi 1995. Óhætt er að segja að byrjunin hafi ekki lofað góðu. Þeir töpuðu öllum sínum leikjum og ráku lestina af 24 liðum þegar mótið var gert upp. Til þessa er besti árangur Brasilíumanna á HM 13. sæti á mótinu fyrir sex árum.

Síðan Brasilíumenn tóku þátt í HM á Íslandi hafa þeir alltaf verið með. Þeim hefur jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg á handboltavellinum en handbolti er stundaður á nokkrum svæðum landsins, ekki síst í tengslum við framhaldskóla og háskóla. Þá ekki síður á meðal kvenna en karla en árum saman var kvennalandslið Brasilíu í allra fremstu röð í heiminum.

Á árunum í aðdraganda Ólympíuleikanna í Rio Janero sumarið 2016 var mikið lagt í undirbúning heimamanna til þátttöku í fjölbreyttum íþróttagreinum leikanna. Kraftur var settur í þjálfun handboltamanna. Núverandi landsliðsþjálfari Spánar, Jordi Ribera, var ráðinn landsliðsþjálfari karla 2013 auk þess að vera ráðgjafi við ýmsa þjálfun. Ribera leiddi karlalið Brasilíu inn í átta liða úrslit leikanna sem var árangur framar vonum. Hann hætti eftir leikana og tók við landsliði Spánar. Í stað Ribera var ráðinn núverandi þjálfari sem er heimamaður, Washington Nunes Silva Junior, 55 ára gamall. Hann hafði verið hægri hönd Ribera. Á HM fyrir tveimur árum sýndi brasilíska landsliðið að árangur þess á ÓL nokkrum mánuðum fyrr var engin tilviljun. Liðið komst í 16-liða úrslit þar en tapaði fyrir fyrrverandi læriföður sínum í spænska landsliðinu með eins marks mun, 28:27.

Ljóst er að hvernig sem leikur Íslands og Brasilíu í Lanxess-Arena í dag endar þá hafa Brasilíumenn náð sínum besta árangri á HM frá upphafi. Þeir verða aldrei neðar en í 12. sæti.

Nánar er fjallað um viðureign Íslands og Brasilíu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert