Curry með annan stórleik

Stephen Curry sækir að körfu Houston.
Stephen Curry sækir að körfu Houston. AFP

Golden State er komið í 2:0 í einvíginu gegn Houston Rockets í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Golden State með Stephen Curry í broddi fylkingar landaði eins stigs sigri, 99:98, þar sem Houston skoraði átta síðustu stigin. Houston átti möguleika á að stela sigrinum. Liðið fékk boltann þegar rúmar átta sekúndur voru til leiksloka en James Harden náði ekki að koma skoti á körfuna og Golden State fagnaði sigri.

Líkt og í fyrsta leiknum átti Stephen Curry flottan leik. Hann skoraði 33 stig og Andrew Bogut var með 14 stig, átta fráköst og þá varði hann 5 skot. James Harden skoraði 38 stig fyrir Houston og Dwight Howard, sem lék að nýju eftir meiðsli, skoraði 19 stig og hirti 17 fráköst.

Næstu leikir fara fram á heimavelli Houston.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert