„Hann er stór strákur“

Finnur Atli Magnússon
Finnur Atli Magnússon Styrmir Kári

Finnur Atli Magnússon, leikmaður Hauka, átti fínan leik þrátt fyrir að Haukar töpuðu fyrir Stjörnunni í Dominos deildinni í kvöld. Lokatölur urðu 70:67 í æsispennandi körfuboltaleik.

„Þetta var hörkuleikur og við hefðum alveg getað tekið þetta. Justin Shouse hitti úr þrist í lokin á meðan við klikkum á þrist. Það er basically leikurinn." „Þeir fóru á siglingu í lok fyrri hálfleiks minnkuðu þetta í fjögur. Við vorum óheppnir að fá ekki síðustu körfuna dæmda þá. Dómararnir skoðuðu myndband og tékkuðu svo það er ekki hægt að rökræða það. Við vorum of mikið að drippla og hættum að láta boltann ganga."

Finnur var nokkuð sáttur við spilamennsku liðsins í dag, þrátt fyrir tapið.

„Þetta var allt í lagi, við héldum Stjörnunni í 70 stigum, það er svakalega fínt varnarlega. Það vantar Hauk næstum allan leikinn, hann var í villuvandræðum og spilaði samtals um fimm mínútur. Kristján er meiddur og það hefði verið fínt að hafa hann á Hlyn. Ég sný mig á ökkla og þá er erfitt að vera á Hlyn. Hann er stór strákur."

Haukar eru ásamt fimm öðrum liðum, tveim stigum frá fallsæti og er deildin einstaklega jöfn í neðri hlutanum og viðurkennir Finnur að það hefði verið mjög sætt að ná stigunum í kvöld. Næsti leikur Hauka er gegn toppliði Tindastóls og er Finnur brattur fyrir þann leik.

„Þetta er rosalega jafnt og sérstaklega þegar ÍR tekur Njarðvík, við hefðum svo sannarlega getað tekið þessi tvö stig og rifið okkur úr þeim pakka en það gekk ekki í dag. Það er Tindastóll úti á fimmtudaginn og það verður erfiður leikur."

„Við verðum að spila á móti þeim einhverntíman. Við hefðum getað tekið þennan leik og við höfum fulla trú á að við getum tekið stólana. Við verðum að undirbúa okkur og fara yfir það sem við vorum að gera rétt og rangt í þessum leik og fara yfir það sem Tindastóll er að gera," sagði Finnur Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert