Náðum að leiðrétta mistökin

Stuðningsmenn Grindavíkur voru kampakátir með Dag Kár og félaga hans …
Stuðningsmenn Grindavíkur voru kampakátir með Dag Kár og félaga hans hjá Grindavíkurliðinu í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkur fannst við vera sviknir um sigurinn í síðasta leik. Mér fannst tapið í Grindavík verulega ósanngjarnt og við sýndum stórt hjarta að koma til baka eftir þau vonbrigði,“ sagði Dagur Kár Jónsson í samtali við mbl.is, en hann skoraði 14 stig fyrir Grindavík í sigri liðsins gegn KR í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta karla í kvöld. 

„Við fylgdum okkar leikplani allan leikinn og þegar þeir gerðu áhlaup á okkur undir lokinn þá misstum við ekki einbeitinguna. Við héldum áfram að framkvæma kerfin okkar vel og náðum að landa lífsnauðsynlegum sigri. Við höfum bullandi trú á okkur og sýndum það í verki í þessum leik,“ sagði Dagur Kár enn fremur.

Grindvík hélt lífi í von sinn um að verða Íslandsmeistari með sigrinum í kvöld, en staðan í einvígi liðanna er 2:1 og Dagur Kár hefur fulla trú á að Grindavík geti haft betur í tveimur leikjum í röð í framhaldinu.

„Við hlökkum mikið til þess að spila við þá í Grindavík á fimmtudaginn og leiðrétta mistök okkar frá því í öðrum leiknum. Við erum komnir inn í einvígið aftur og þetta er galopið núna. Við erum staðráðnir í því að jafna metin í einvíginu í næsta leik,“ sagði Dagur Kár um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert