Ekki fallegur leikur en við tökum hann

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður eftir 72:63-sigurinn á Breiðabliki í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Hann segir leikinn ekki hafa verið fallegan.

„Mér líður alltaf vel eftir sigurleiki. Þetta var ekki fallegur körfuboltaleikur en við tökum hann. Það var mikil barátta í þessu og við sýndum karakter í leiknum, sérstaklega í restina. Þá tókum við mikilvæg sóknarfráköst og vörnin hélt vel.“

Pétur vill sjá fleiri fráköst hjá sínu liði, sérstaklega í vörninni. 

„Við verðum samt að finna neikvæða hluti í þessu líka til að halda jafnvægi. Við verðum að varnarfrákasta betur og vera grimmari í varnarfráköstunum. Vörnin er góð og þegar fráköstin koma með erum við í frábærum málum.“

Stjarnan náði mest 15 stiga forskoti í leiknum, en Breiðablik minnkaði muninn í tvö stig þegar skammt var eftir. 

„Þetta er sveiflukenndur leikur. Það er aldrei neitt öruggt í þessu. Við vorum með mikilvæga leikmenn í villuvandræðum og það þurfti að hægja á tempóinu. Við spiluðum leikinn ekki á sama tempói allan leikinn og sérstaklega þegar við förum djúpt á bekkinn. Við reyndum að hanga á boltanum svolítið og éta klukkuna.“

Stjarnan er í 4. sæti sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Hann segist lítið spá í því. 

„Allir leikir eru ótrúlega mikilvægir. Maður verður að fara í alla leiki eins og þetta séu úrslitaleikir, það er svo lítið bil á milli liðanna. Við verðum að nálgast þetta þannig, berjast og slást. Þá er ég alltaf sáttur. Það er engin pressa, við erum ekkert að hugsa um töfluna,“ sagði Pétur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert