Spurs stöðvaði meistarana

LaMarcus Aldridge reynir að skora fyrir San Antonio fram hjá …
LaMarcus Aldridge reynir að skora fyrir San Antonio fram hjá þeim David West og Kevin Durant hjá Golden State í leiknum í kvöld. AFP

San Antonio Spurs er ekki enn komið í sumarfrí því liðið lagði meistarana í Golden State Warriors að velli í kvöld, 103:90, í fjórðu viðureign liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik en leikið var í San Antonio.

Golden State hafði unnið fyrstu þrjá leikina og það má mikið út af bregða til að liðið fari ekki áfram en Spurs náði að framlengja rimmuna um að minnsta kosti einn leik með sigrinum í kvöld. Staðan er 3:1.

LaMarcus Aldridge skoraði 22 stig fyrir San Antonio og tók 10 fráköst og Manu Ginobili gerði 16 stig. Kevin Durant skoraði 34 stig og tók 13 fráköst fyrir Golden State og Klay Thompson kom næstur með 12 stig.

Fimmti leikurinn fer fram á heimavelli Golden State í Oakland aðfaranótt miðvikudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert