Áfram vinnur Celtics á heimavelli

Jaylen Brown sækir á körfu Cleveland Cavaliers í leik Boston …
Jaylen Brown sækir á körfu Cleveland Cavaliers í leik Boston og Cleveland í Boston í gærkvöldi. AFP

Boston Celtics komst yfir á nýjan leik í einvígi sínu við Cleveland Cavaliers í úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í gærkvöldi, 3:2. Boston vann þá fimmta leik liðanna með 13 stiga mun, 96:83, á heimavelli en liðið hefur ekki tapað leik þar í allri úrslitakeppninni að þessu sinni. 

Celtics lagði grunn að sigri sínum með öflugum leik strax í fyrsta leikhluta. Að honum loknum var liðið með 13 stiga forskot, 32:19. Þann mun náðu leikmenn Cavaliers aldrei að minnka. 

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 53:42. Jayson Tatum skoraði 24 stig fyrir Celtics og var þeirra stigahæstur. Hann tók einnig sjö fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Jaylen Brown skoraði 17 stig og Al Horford 15 stig og tók 12 fráköst. 

LeBron James var atkvæðamestur leikmanna Cleveland, eins og stundum áður. Hann skoraði 26 stig og tók 10 fráköst auk þess að eiga fimm stoðsendingar. Kevin Love skoraði 14 stig og tók sjö fráköst. 

Liðin mætast næst annað kvöld á heimavelli Cavaliers. Vinna þarf fjóra leiki til þess að standa uppi sem sigurvegari í Austurdeildinni og mæta sigurliði Vesturdeildarinnar í úrslitum um NBA-titilinn í körfuknattleik. 

Staðan er jöfn í einvígi Golden State og Houston Rockets í úrslitum Vesturdeildarinnar. Hvort lið hefur tvo vinninga. Næsta viðureign verður á heimavelli Houston í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert