Fyrirliðinn frá í sex vikur

Logi Gunnarsson verður frá næstu vikurnar vegna hnémeiðsla.
Logi Gunnarsson verður frá næstu vikurnar vegna hnémeiðsla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Gunnarsson, fyrirliði karlaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik, er með skaddað liðband í hné og verður því frá næstu vikurnar vegna meiðsla. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Logi meiddist í 96:70-sigri Njarðvíkur gegn Val í úrvalsdeild karla, Subway-deildinni, sem fram fór í Ljónagryfjunni í Njarðvík hinn 22. október.

Njarðvíkingar reikna með því að fyrirliðinn verðir frá í að minnsta kosti sex vikur en Logi varð fertugur hinn 5. september.

Það sem ég óttaðist mest var að krossbandið væri slitið og tímabilið og hreinlega ferillinn í hættu,“ sagði Logi.

„Þetta eru því í raun jákvæðar fréttir. Ég reyni að horfa á þetta jákvæðum augum og mér líður vel núna. Læknar sem skoðuðu myndirnar segja að fyrirbyggjandi æfingar sem ég geri daglega séu í raun að bjarga mér,“ sagði Logi í samtali við heimasíðu Njarðvíkinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert