Philadelphia í úrslit eftir mikla spennu

Joel Embiid var með tvöfalda tvennu í nótt.
Joel Embiid var með tvöfalda tvennu í nótt. AFP/Tim Nwachukwu

Philadelphia 76ers tryggði sér í nótt sæti í úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik með því að vinna Miami Heat með minnsta mun, 105:104, í umspili um laust sæti í úrslitakeppninni.

Joel Embiid fór fyrir heimamönnum í Philadelphia er hann skoraði 23 stig, tók 15 fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Tyrese Maxey bætti við 19 stigum og sex stoðsendingum.

Tyler Herro var stigahæstur í leiknum með 25 stig og gaf níu stoðsendingar hjá Miami. Jimmy Butler skoraði 19 stig, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum.

Þrátt fyrir tapið fær Miami annað tækifæri til þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Chicago sendi Atlanta í sumarfrí

Chicago Bulls hafði betur gegn Atlanta Hawks, 131:116, í umspilinu og mætir Miami í hreinum úrslitaleik um síðasta sætið í úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Atlanta er hins vegar komið í sumarfrí.

Coby White fór á kostum í liði Chicago er hann skoraði 42 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Nikola Vucevic bætti við 24 stigum og 12 fráköstum.

DeMar DeRozan var þá með 22 stig og níu stoðsendingar.

Dejounte Murray var stigahæstur hjá Atlanta með 30 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar. Trae Young og Clint Capela bættu báðir við 22 stigum.

Young gaf auk þess tíu stoðsendingar og Capela tók 17 fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert