De Grasse náði loks í ólympíugullið

Andre De Grasse er ólympíumeistari í 200 metra hlaupi karla.
Andre De Grasse er ólympíumeistari í 200 metra hlaupi karla. AFP

Kanadíski spretthlauparinn Andre de Grasse er ólympíumeistari í 200 metra hlaupi karla eftir að hafa komið fyrstur í mark í úrslitum greinarinnar á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

De Grasse hefur löngum verið á meðal bestu spretthlaupara heims en með því að koma í mark á 19,62 sekúndum í dag tryggði hann sér sitt fyrsta ólympíugull á ferlinum.

Hann hafði áður unnið til bronsverðlauna í 100 metra hlaupi á leikunum í Tókýó og áður unnið til þrennra verðlauna á leikunum í Ríó í Brasilíu fyrir fimm árum, þegar hann krækti í silfur í 200 metra hlaupi og bronsverðlaun í bæði 100 metra hlaupi og 4x100 metra boðhlaupi.

Ólympíumedalíurnar eru þar með orðnar fimm talsins hjá hinum 26 ára gamla De Grasse og loks kom fyrsta gullið í dag.

Bandaríkjamennirnir Kenneth Bednarek og Noah Lyles komu á eftir De Grasse í hlaupinu í dag. Bednarek hljóp á 19,68 sekúndum og tryggði sér silfur og Lyles kom í mark á 19,74 sekúndum og nældi í bronsverðlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert