„Ætluðum bara í fóstureyðingu ef við yrðum óléttar“

flickr

Fyrir fáeinum árum síðan hætti viðmælandi Monitor við að eyða fóstri þrátt fyrir þrýsting frá fjölskyldu, vinum og barnsföður. Hér segir hún Monitor sína sögu.


Hvernig voru þínar aðstæður þegar þú komst að því að þú ert ólétt?

Ég var 17 ára og ekki í sambandi. Það var mjög erfitt. Ég var með það prentað í hausinn að ég ætti að fara í fóstureyðingu. Barnsfaðir minn var mjög ósáttur við þetta og lét mig heyra það. Af hans viðbrögðum mætti halda að ég hefði orðið ólétt á eigin spýtur.

Notaðist þú við getnaðarvarnir á þessum tíma?

Nei, ég var lítil og vitlaus. Þegar við vinkonurnar höfðum verið með einhverjum gæjum höfðum við oft talað um að ef við yrðum óléttar færum við bara í fóstureyðingu. Ég átti vinkonur sem höfðu farið í fóstureyðingu og fyrir þeim var þetta ekkert mál.

Hvernig uppgötvaðir þú að þú værir ólétt?

Mér leið eitthvað rosalega illa. Ég fór á djammið og þurfti að gubba eftir tvo bjóra og þá fattaði ég að það væri ekki alveg allt í lagi hjá mér. Ég vissi náttúrulega bara ekkert hvað ég ætti að gera, það hafði aldrei hvarflað að mér að eignast barn. Ég endaði með að taka óléttupróf með vinkonum mínum í algeru rugli. Svo fór ég upp á læknavakt. Ég tók annað próf á læknavaktinni sem var líka jákvætt og læknirinn sagði mér að ef prófið væri jákvætt þá væri það bara jákvætt.

Hvað tók við eftir það?

Ég komst snemma að því að ég væri ólétt svo ég hafði tíma til þess að íhuga þettta vel. Ég hugsaði með mér að ég gæti ekki átt þetta barn svo ég pantaði tíma í fóstureyðingu og hitti í framhaldinu félagsráðgjafa. Hún talaði við mig og spurði mig út í allt, af hverju ég vildi ekki eiga barnið og svoleiðis.

Ég fór tvisvar að hitta hana, ég man ekki afhverju en ég fékk ekki að skrifa undir pappírana í fyrra skiptið. Þegar ég kom aftur var hún tilbúin með pappírana og ég átti að skrifa undir en ég bara brotnaði niður og grét. Ég hafði komið til þess að skrifa undir en ég bara gat það ekki. Svo sagði ég við mig „Jú helvítis, ég bara geri þetta,“ en þá stoppaði félagsráðgjafinn mig af og sagði „Þú ert ekki tilbúin, hugsaðu þetta í viku“. Raunin var að ég var ekki andlega tilbúin til að fara í fóstureyðingu þó svo að ég hafi ætlað mér það. Ég hefði verið ónýt eftir á.


Þessi stund sem þú tókst ákvörðunina að eiga barnið hefur væntanlega tekið mikið á. Manstu hvenær þú gladdist fyrst yfir því að vera að verða mamma?

Örugglega í fyrsta sónarnum. Þar var allur skalinn af tilfinningum. Að sjá barnið á skjánum er eitt það merkilegasta sem hefur komið fyrir mig og þá varð þetta raunverulegt. Þá byrjaði maður að leyfa sér að dreyma.


Gerðir þú þér grein fyrir hversu erfitt það yrði að ala upp barn einsömul þegar þú tókst þessa ákvörðun?

Nei. Barneignir og uppeldi eru erfið fyrir fólk í hjónabandi en hvað þá fyrir 17 ára stelpu sem er ekki með mann og ber alla ábyrgð á barninu sjálf. Ég man að fyrstu nóttina með syni mínum hélt ég að maður yrði að skipta á honum í hvert skipti sem hann pissaði. Hann pissaði svona fimm sinnum yfir nóttina svo ég var alltaf að, ég vissi náttúrulega ekkert hvað ég var að gera (hlær).  Ég á sem betur fer frábæra fjölskyldu sem hefur stutt vel við bakið á mér. Faðirinn hefur aldrei verið inni í myndinni og það var mun erfiðara en ég hafði ímyndað mér. Það er alveg fáránlega erfitt að gera þetta einn.

Ert þú á móti fóstureyðingum eftir þína reynslu?

Ég er ekki á móti fóstureyðingum en mér finnst oft eins og þetta sé svo léttvægt í hugum margra. Maður fari bara í fóstureyðingu og að það sé bara auðvelt. Sumar stelpur virðast bara stunda þetta en maður er auðvitað ekkert í aðstöðu til að dæma annað fólk.

Hér sést aðeins stutt brot úr umfjöllun Monitor um fóstureyðingar. Umfjöllunina má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þín á hleypidómum varðandi þá sem eru öðru vísi en þú. Taktu til þín það hól sem þú færð því þú átt það skilið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þín á hleypidómum varðandi þá sem eru öðru vísi en þú. Taktu til þín það hól sem þú færð því þú átt það skilið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir