Dómaranum mútað með KFC

Tilþrif á sápuboltavellinum.
Tilþrif á sápuboltavellinum. Jón Steinar Guðmundsson.

Þrátt fyrir að flestir háskólanemar landsins séu komnir í sumarfrí eru nemendur Háskólans á Bifröst þar undanskildir. Þó svo að fríið þeirra hefjist ekki fyrr en í júlí nýttu stúdentarnir sér gott veður síðastliðinn föstudag í árlegt sápuboltamót á háskólasvæðinu.

Júlía Guðmundsdóttir, meistaranemi í lögfræði auk forystu og stjórnunar, segir sápuboltann vera árlega hefð sem njóti mikilla vinsælda og skyldi engan undra.

„Við erum með tún sem settur er á dúkur með sápu og vatni og svo klæðir fólk sig upp í hina og þessa búninga,“ segir Júlía. Á vellinum eru aldrei færri en fimm í liði og ekki fleiri en átta. Á sápuvellinum er svo spilaður fótbolti en Júlía segir íþróttina þó eiga meira skylt við mýraboltann á Ísafirði en eiginlega knattspyrnu, þrátt fyrir að sápubolti sé eðlinu samkvæmt hreinlegra sport.

Ekki tjáir að deila við dómarann

„Á Bifröst er margra ára hefð fyrir því sem kallast skemmtanavaldið. Eftir hvert sápuboltamót er nýr handhafi skemmtanavaldsins tilnefndur og kosinn en þar að auki erum við með embætti ritara skemmtanavaldsins og ritara ritarans,“ segir Júlía og útskýrir að ritari skemmtanavaldsins hafi verið orðinn þreyttur á vinnunni og því fengið sér ritara. Hlutverk þessa þríeykis er að dæma leiki sápuboltamótsins en raunar er handhafi skemmtanavaldsins alvaldur í þeim efnum.

„Það eru meira og minna engar reglur, það er það sem gerir sápuboltann skemmtilegan. Þegar liðið mitt var að keppa fékk ég til dæmis boltann í andlitið. Dómaranum fannst það svo frábært að hitt liðið fékk aukastig fyrir að hitta svona vel,“ segir Júlía og hlær. Hún tekur fram að vissulega gildi ákveðnar siðferðisreglur og að spark í pung eða álíka bolabrögð séu að sjálfsögðu ekki leyfileg. Sigurvegararnir þurfi hins vegar alls ekki að vera þeir sem skori mest á mótinu og í raun skipti markastaðan engu máli. „Þó svo að leikur hafi farið 2-1 getur dómarinn ákveðið að tapliðið hafi spilað skemmtilegri fótbolta og þar með vinnur það lið leikinn.“

Júlía segir eina af mikilvægari hefðum sápuboltsans vera mútugreiðslur til handhafa skemmtanavaldsins. „Hann fékk vindil, viský og nudd. Einn kom með KFC-poka handa honum, hann fékk pítsu og við sungum fyrir hann lag,“ segir Júlía og tekur fram að múturnar geti þó fallið um sjálfar sig því handhafi skemmtanavaldsins geti ákveðið að þær séu of lélegar eða sleikjulegar og útdeilt refsistigum.

„Það þýðir ekkert að vera tapsár. Handhafi skemmtanavaldsins á að vera vel í því og til að mynda gerðist það í ár að einhver lið spiluðu bara tvo leiki af því að hann gleymdi hreinlega að láta þau spila meira. En það er hluti af fjörinu, það þýðir ekki að deila við dómarann,“ segir Júlía.

Hún tekur fram að þó svo að áfengi sé haft um hönd á sápuboltanum sé einnig haldinn sápubolti fyrir börnin á svæðinu fyrr um daginn enda sé mikið af fjölskyldufólki við nám á Bifröst.

Sigurvegarar þessa sápuboltamóts voru Grýlurnar, sem unnu búningakeppnina, og FC Sleipnir sem vann mótið. Spurð hvort Sleipnismenn hafi unnið fyrir sakir knattspyrnusnilli sinnar eða vegna mútugreiðslna svarar Júlía að þar hafi eflaust sitt lítið af hvoru komið til.

Þessar dísir sungu og dönsuðu fyrir handhafa skemmtanavaldsins.
Þessar dísir sungu og dönsuðu fyrir handhafa skemmtanavaldsins. Mynd/ Nemendafélag Háskólans á Bifröst
Þessi hópur tók sig sérlega vel út en búningar eru …
Þessi hópur tók sig sérlega vel út en búningar eru mikilvægur liður í sápuboltanum. Mynd/ Nemendafélag Háskólans á Bifröst
Vaskir menn og málaðir.
Vaskir menn og málaðir. Mynd/ Nemendafélag Háskólans á Bifröst
Það er ekki hlaupið að því að halda jafnvægi á …
Það er ekki hlaupið að því að halda jafnvægi á dúknum. Mynd/ Nemendafélag Háskólans á Bifröst
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson