Flúði heimilið vegna myglusvepps

Kristín Maríella þurfti að flýja heimili sitt vegna myglusvepps.
Kristín Maríella þurfti að flýja heimili sitt vegna myglusvepps. http://www.bonaparte.is/

Kristín Maríella hannar skartgripi með systur sinni undir merkinu Twin Within en hönnun þeirra systra hefur vakið mikla athygli undanfarið. Kristín á von á sínu fyrsta barni með kærasta sínum, Orra Helgasyni, en þau þurftu nýverið að flýja íbúð sína vegna myglusvepps.

„Við erum sett [eigum von á barninu] 6. desember, þannig að þetta verður lítill jólapakki. Við erum rosalega spennt,“ segir Kristín.

„Við komumst að því að það væri myglusveppur í leiguíbúðinni okkar í byrjun júní. Við Orri vorum búin að vera mjög þreytt og veik undanfarið ár, sérstaklega Orri. Við vorum alltaf uppgefin af þreytu og áttum erfitt með svefn. Orri fékk einnig einkennilega verki í liðina, kláða og doða í fætur og hendur, suð fyrir eyrun og útbrot í kringum augun. Hann var búinn að ganga á milli lækna og sérfræðinga í marga mánuði en þeir fundu aldrei neitt,“ segir Kristín og að þau hafi verið orðin örvæntingafull þar sem veikindin voru farin að hafa mikil áhrif á daglegt líf þeirra.

„Við ákváðum að láta athuga með myglusvepp í íbúðinni því okkur fannst loftið í henni vera aðeins þyngra en vanalega. Við höfðum samt ekkert sérstaklega mikla trú á að það gæti leynst myglusveppur hjá okkur þar sem íbúðin er nýuppgerð og við sáum engin ummerki um neitt óeðlilegt.“

Kristín og Orri settu sig í samband við fyrirtækið Hús og heilsa sem mælir fyrir myglusvepp í húsum. „Þau fundu óeðlilega mikinn raka inni á baði. Það var tekið sýni og seinna var það staðfest að um myglusvepp væri að ræða, ástandið var slæmt. Við höfðum samband við húseigendur sem voru mjög skilningsríkir og tóku ástandinu alvarlega en þau ætla að gera við skemmdirnar.“

Kristín og Orri drifu sig út úr íbúðinni þar sem þau gátu ekki ímyndað sér að vera stundinni lengur í eitruðu umhverfi vegna þess að Kristín á von á barni og Orri var orðinn veikur.

„Við pökkuðum saman í eina tösku og fluttum upp í sumarbústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. Bústaðurinn er eldgamall og kósí. Okkur leið betur þar en það er auðvitað engin framtíðarlausn að búa í sumarbústað á Þingvöllum,“ segir Kristín. „Við hófum strax leit að nýjum samastað.“

„Sem betur fer höfum við fundið íbúð sem við fáum afhenta bráðlega en við erum búin að vera á flakki síðan við uppgötvuðum mygluna.“

„Myglusveppir eru ofboðslega algengir í húsum á Íslandi, miklu algengari en fólk gerir sér grein fyrir. Þeir eru mjög lúmskir og sitja oftast inni í gólfum og veggjum þar sem þeir sjást ekki með berum augum,“ segir Kristín sem mælir með að fólk láti mæla reglulega fyrir myglusveppum á heimili sínu. „Slíkar mælingar ættu að vera partur af almennu viðhaldi.“

„Nú hlökkum við til að koma okkur fyrir á nýjum stað og byrja nýtt líf þar sem miklar breytingar hafa átt sér stað. Það skiptir öllu máli fyrir okkur að ná heilsu aftur en það getur tekið tíma þar sem eitruð gró myglusvepps leggjast á taugakerfi líkamans og geta gert mikinn skaða,“ segir Kristín sem er þakklát fyrir að hafa uppgötvað myglusveppinn áður en barnið fæðist.

„Maður verður að horfa á björtu hliðarnar þegar maður lendir í erfiðleikum eins og þessum. Með réttu hugarfari eru breytingar af hinu góða og við erum full tilhlökkunar, enda ekki annað hægt þegar von er á litlum gleðigjafa.“

Hálsmenin sem Kristín hannar með systur sinni eru litrík og …
Hálsmenin sem Kristín hannar með systur sinni eru litrík og skemmtileg. twinwithin.com
Kristín Maríella ásamt hundinum sínum. Myndin er fengin að láni …
Kristín Maríella ásamt hundinum sínum. Myndin er fengin að láni frá BonAparte. http://www.bonaparte.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál