Ferðaðist til 13 borga á 30 dögum og tók viðtöl

Hjördís Hugrún var önnum kafin um jólin í fyrra. Hún …
Hjördís Hugrún var önnum kafin um jólin í fyrra. Hún ætlar að njóta jólanna í botn í ár.

Rithöfundurinn Hjördís Hugrún Sigurðardóttir býr í Zürich í Sviss. Nýverið gaf hún út bókina Tækifærin ásamt móður sinni, Ólöfu Rún Skúladóttur. Hjördís, sem er í meistaranámi í rekstrarverkfræði við Federal Institute of Technology Zürich, tók sér frí frá skólanum í eitt ár til að skrifa bókina. Á þessum tíma ferðaðist hún um víða veröld til að taka viðtöl við íslenskar konur sem sinna áhugaverðum störfum um allan heim.   
 
„Rétt fyrir jólin í fyrra kom ég heim eftir að hafa ferðast til 13 borga á 30 dögum og tekið viðtöl. Yfir hátíðirnar og langt fram á vor sat ég svo við tölvuna og skrifaði,“ segir Hjördís sem er afar spennt fyrir að njóta jólanna í ár í ró og næði. „Ég verð að viðurkenna að ég hef eiginlega ekki verið jafn spennt fyrir jólunum síðan ég var lítil stelpa. Ég beið alveg með eftirvæntingu eftir að kveikt yrði á jólaljósunum hérna í Zürich. Hér er lagður mikill metnaður í jólaskreytingarnar í borginni og það er í raun töfrum líkast að labba eftir Bahnhofstrasse á aðventunni.“

Hér koma svo tvö brot út bók þeirra mæðgna sem gefur innsýn í heim kjarkmikilla og kröftugra kvenna.

Unnur Grétarsdóttir, forritari hjá Pinterest í San Francisco

...„Ég var alsæl að læra við Stanford-háskóla. Ég tók mér þó dágott frí þar sem ég vann bara nóg til að sjá fyrir mér. Ég ferðaðist og var skíðakennari þessa tvo vetur í Colorado, vann í sumarbúðum í Virginíu, vann í Flórída hjá Club Med, í svifdrekabúð, ferðaðist um Taíland og seinna ferðaðist ég um Afríku. Mér finnst mjög skemmtilegt að reyna eitthvað nýtt og ég vissi ekki á þeim tíma hvað mig langaði að starfa við.“ Unnur játar að í henni lúri ævintýrakona þótt minna fari ef til vill fyrir þeirri hlið nú en fyrir áratug eða svo. Voru foreldrar hennar ekkert áhyggjufullir yfir því að hún væri ein á ferð um ókunn lönd? „Foreldrar mínir hafa ætíð stutt mig í því sem ég vil taka mér fyrir hendur, en jú  þetta var fyrir tíma almennrar farsímanotkunar, svo ég varð nú að hringja heim reglulega,“ segir Unnur og brosir. „Sérstaklega þegar ég var ein á ferð um Afríku.“

Jenný Ruth Hrafnsdóttir, vélaverkfræðingur og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðssviðs hjá BiOM í Boston

... ,,Að láta þessa vél ganga og gera það sem er á teikniborðinu einn daginn að vöru, sem virkilega breytir lífi fólks er mjög gefandi. Ég hef mikinn áhuga á rekstri en það skiptir mig máli að reksturinn samræmist mínum lífsviðhorfum, hvað varan stendur fyrir og hvaða áhrif hún hefur á umheiminn, ekki bara einhver rekstur.“ 

Var eitthvað sem kom þér á óvart við það að koma út á vinnumarkaðinn? „Já, ég hugsa að allir fái það sjokk, í skóla ertu alin upp þannig að þú sért alveg það dýrmætasta á jarðríki. Þegar ég kom út á vinnumarkaðinn áttaði ég mig á því að ég var ekki eins sérstök og skólakerfið var búið að ala upp í mér. Þá þarftu að gera sjálfan þig verðmætan, skapa þína sérstöðu og ég held að það taki alla smátíma að átta sig á því.“

Bók þeirra Hjördísar Hugrúnar Sigurðardóttur og Ólafar Rúnar Skúladóttur gefur …
Bók þeirra Hjördísar Hugrúnar Sigurðardóttur og Ólafar Rúnar Skúladóttur gefur innsýn inn í heim kjarkmikilla og kröftugra kvenna. www.taekifaeri.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál