Skotleyfi á netinu

Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt.
Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ef hún Sigga Kling, sem ég held mikið upp á, hefði spáð því fyrir mér að í janúar 2015 yrði ég fyrir einelti á netinu hefði ég haldið að nú væri hún alveg búin að missa það. Engu að síður er það nákvæmlega það sem gerðist. Eins mikið og orð geta sært er samt langverst að upplifa hvað fólki er alveg sama og hversu eðlilegt því þykir að dæma aðra og rakka ókunnuga niður á netinu. Og ekki má gleyma að þessi orð koma alltaf til með að vera þarna öllum sýnileg,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir, höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt, í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu. 

„Á fimmtíu árum hefur ýmislegt á daga manns drifið en aldrei áður hef ég þó upplifað það að vera gjörsamlega étin svona á opinberum vettvangi. Og mikið rosalega er það sárt. Alveg hrikalega! Það sker í hjartað og maður verður algjörlega varnarlaus. Blóðþrýstingurinn nær sögulegum hæðum, tárin renna og hendur skjálfa. Mest langaði mig að fara að sofa og ekki vakna aftur fyrr en eftir tvær vikur eða svo – en auðvitað gat ég ekkert heldur sofið. Ég fór að hugsa að ef ég fullorðin lífsreynd konan tæki þetta svona nærri mér hvernig ætli blessuðum börnunum og óhörðnuðum unglingunum líði þá sem lenda í svona.

Fullorðið fólk hneykslast og skammast yfir þessum grimmu krökkum sem níðast á öðrum á netinu. Og tuðar svo lifandis ósköp yfir ungdómnum í dag. Ekki hvarflar þó að fólki að líta í eigin barm. Ekki eitt stundarkorn. Nei, fullorðna fólkið telur sér trú um að það geri ekki svona eða þá að það eigi rétt á því haga sér svona í skjóli málfrelsis. Það eiga jú allir rétt á öllu í dag.“

Jónu Ósk sárnaði hvernig fólk brást við.

„Það er líka athyglisvert að þeir sem tjáðu sig hvað mest um pistil minn, sem ég skrifaði í kaldhæðni, byrjuðu allir á því að segja að þeir gætu nú ekki orða bundist. Þvílíkt bull! Segir þetta fólk það sama við börnin sín? Bara að láta vaða á netinu ef þeim mislíkar eitthvað sem aðrir tjá sig um. Skjóta og ekki spyrja. Ekki skrýtið að einelti á netinu sé svona alvarlegt vandamál hjá börnunum okkar ef þetta eru fyrirmyndirnar. Auðvitað getur maður setið á sér þótt manni mislíki skoðanir eða tilfinningar annarra. Það er enginn sem segir að þú verðir að hleypa púkanum út og slá á lyklaborðið. Við fullorðna fólkið hljótum að geta setið á okkur. Þá kröfu gerum við á börnin okkar. Eða er það ekki annars?

Hvað nákvæmlega gerðist í kjölfar þessa pistils míns á mbl.is er mér alveg óskiljanlegt. En að ég skyldi halda að mér væri óhætt að tjá mig um tilfinningar mínar á kaldhæðnislegan hátt dró heldur betur dilk á eftir sér. Líklega má hér um kenna múgæsingi. Þegar einn byrjar kemur skriðan á eftir og allir verða voða æstir. Þetta virðist mjög algengt hegðunarmynstur á netinu.“

Jóna Ósk lærði ýmislegt af þessari reynslu.

„Þótt mér hafi liðið alveg ömurlega meðan stormurinn stóð sem hæst þá hef ég nú náð áttum og tekið þá ákvörðun að nettröllin sem réðust á persónu mína fái ekki að stjórna tilfinningum mínum. Vissulega mun ég samt hugsa mig um tvisvar, og eflaust þrisvar, í framtíðinni þegar ég skrifa pistla. Ekki af því ég persónulega óttist þetta fólk heldur vegna þess að mér þykir afar vænt um fjölskyldu mína og get ekki hugsað til þess að börnin mín þurfi að upplifa það að móðir þeirra sé rökkuð niður á netinu.

Allir þeir sem „gátu ekki orða bundist“ höfðu engan áhuga á að vita hvort eitthvað lægi að baki. Þeim var sko nákvæmlega sama. Og það á ekkert aðeins við í mínu tilfelli. Fólk virðist ekkert hugsa út í það að hvert og eitt okkar burðast með sinn farangur og öll heyjum við okkar baráttu í þessu lífi.

Þrátt fyrir að hafa gagnrýnt Bláa naglann fyrir smekklausa tímasetningu þá lofaði ég líka framtakið. Aldrei myndi hvarfla að mér að gera lítið úr veikindum og sjúkdómum. Aldrei! Sjálf hef ég verið tíður gestur á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og verið þar undir séreftirliti vegna frumubreytinga. Ég, eins og flestir aðrir óttast krabbann og því kvíði ég næstu skoðun þar sem ég fæ úr skorið hvort tekist hafi að skera allar krabbameinsfrumur í burtu sem fundust fyrir hálfu ári. Þess vegna vil ég biðja ykkur þarna úti að rangtúlka ekki svona orð mín og ekki ákveða fyrir mig hvernig mér eigi að líða og hvað mér á að finnast. „Réttu“ tilfinningarnar og „réttu“ skoðanirnar eru nefnilega ekki til. Ég kenni í brjósti um þá sem ekki hafa stjórn á sér við lyklaborðið en aðallega kenni ég þó í brjósti um þau ungmenni sem verða fyrir einelti og aðkasti á netinu. Því blessuð börnin hafa hvorki þroska né lífsreynslu til að hrista þetta af sér og geta setið uppi með varanlegt ör á sálinni út ævina.“

Jóna Ósk Pétursdóttir.
Jóna Ósk Pétursdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál