Að flytja úr 300 fm húsi breytti mörgu

Áslaug Guðrúnardóttir.
Áslaug Guðrúnardóttir.

„Hugmyndin um mínímalískan lífsstíl hefur alltaf verið til staðar hjá mér þó svo ég hafi ekki endilega haft þetta hugtak í handraðanum fyrr en nýlega. Ég hef alltaf fylgst vel með og fór að taka eftir aukinni umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um mínímalískan lífsstíl og áttaði mig þá á því að ég hef lengi aðhyllst þessa stefnu. Bókaforlagið Bjartur leitaði til mín um að skrifa bókina, starfsfólkið þar þekkti til mín og minna starfa á fréttastofu RÚV. Bókin þróaðist úr því að vera almenn samantekt á því hvað mínímalískur lífsstíll er í það að fjalla um mínímalisma á persónulegum nótum, þar sem ég dreg upp allskonar dæmi úr mínu lífi og flétta inn í umfjöllunina,“ segir Áslaug Guðrúnardóttir höfundur bókarinnar, Mínímalískur lífsstíll - það munar um minna.

Hvernig ert þú sem mínímalisti?

„Ég reyni að halda lífinu fremur einföldu, sanka ekki að mér óþarfa dóti eða skipuleggja frítímann út í hörgul. Ég er búin að losa mig við flest það sem ég nota ekki, hvort sem það eru föt eða hlutir, og mér finnst það stórkostlegur léttir. Það sama á við um frítímann, ég kann vel við að geta tekið ákvarðanir um hvernig ég vilji verja honum þá og þá stundina í stað þess að læsa hann inni í einhverju fyrirfram ákveðnu ofurskipulagi.“

Hvaða kostir fylgja þessum lífsstíl?

„Kostirnir eru óteljandi. Ég hef farið yfir líf mitt á mjög mörgum sviðum, veit hvað ég á og hvað ég vil. Ég er fljótari að taka ákvarðanir um hverju ég klæðist, hvað ég borða og hvert ég ætla eða ætla ekki. Ég veit hvað mér finnst mikilvægt og reyni að sinna því fremur en að sóa tíma og peningum í eitthvað sem gefur mér lítið eða ekkert.“

En gallar?

„Í fljótu bragði sé ég enga galla, það er kannski helst það að fólk virðist sumt misskilja þessa pælingu, og heldur að með mínímalískum lífsstíl verði lífið leiðinlegt og litlaust og að ekki megi nota nein hjálparmeðul til þess að njóta þess. Það er hinn mesti misskilningur, enda snýst þetta ekki um að fylgja ströngum reglum. Einu leiðbeiningarnar eru að eiga það sem maður vil eiga og gera það sem maður vill gera og losa sig við hitt úr lífi sínu.“

Þegar Áslaug er spurð að því hvað hafi komið henni mest á óvart þegar hún skrifaði bókina nefnir hún að hún hafi kannski ekki áttað sig á því hvað hún var komin langt.

„Það sem kom mér mest á óvart var hversu langt ég var að mörgu leyti komin í þessum pælingum öllum, það heitir kannski bara þroski, en verkfærin sem ég fann í öllum þeim aragrúa greina, bóka og ábendinga sem hægt er að finna þegar ég las mér til um málefnið hjálpuðu mér að klára mörg mál. Eitt aðal verkfærið var að snúa hugsuninni við, að nálgast efnislega og andlega tiltekt á jákvæðan hátt. Það er gert með því að legga fyrst mat á það sem veitir gleði í lífinu eða er manni nauðsynlegt. Eftir það er svo auðvelt að segja skilið við afganginn.“

Hvernig getur þessi lífsstíll bætt líf fólks?

„Það ferauðvitað eftir því hvernig staðan er hjá fólki, bæði heima hjá því og í persónulega lífinu. Ég hef talað við marga sem dæsa og segja „þú ættir að sjá í skápana hjá mér!“ eða að vandinn á heimilinu sé sá að makinn vilji engu henda og því um líkt. Fullar geymslur, fullir bílskúrar, geymslur á leigu úti í bæ og fólki fallast hendur. Ég held að með smá hjálp úr þessari átt megi gera fólki það miklu auðveldara að koma öllu þessu „drasli“ í verð eða til þeirra sem á þurfa að halda og geta nýtt það. Árangurinn veitir vellíðan, maður sóar minna, eyðir færri krónum og lífið verður léttara.“

Hvað er mest spennandi við mínímalískan lífsstíl?

„Það er að hver og einn getur ákveðið hversu langt hann vill ganga í þessa átt, það er gaman að örgra sjálfum sér og skoða líf sitt svolítið utanfrá. Með því að fara yfir líf sitt frá a til ö kynnist maður sjálfum sér jafnvel upp á nýtt, það verður skýrara hvað maður vill og þarf og eftir það verur öll ákvarðanataka auðveldari. Þá verður til meiri tími til þess að gera eitthvað skemmtilegt.“

Áslaug segir að pælingin um mínímalískan lífsstíl hafi blundað í henni lengi en það hafi breyst heilmikið eftir að hún flutti úr 300 fm í 100 fm.

„Eins og ég sagði áðan þá hefur þetta alltaf blundað í mér en eftir að við fjölskyldan fluttum úr nærri 300 fermetra húsi í rúmlega 100 þá varð mér endanlega ljóst að þetta væri sú leið sem mér hentaði best. Það var svo mikill léttir fyrir mig að losna undan þeim skyldum sem stórt hús og stór garður setja manni, að ég tali ekki um allt dótið sem við losuðum okkur við í flutningunum – það kom í ljós að við þurftum bara alls ekki neitt á því að halda. Þetta varð eins og hreinsunareldur, nú dreg ég ekkert inn á heimilið nema eitthvað annað fari út í staðinn.“

Hefur þú sparað mikla peninga eftir að þú fórst að pæla í þessu?

„Mínímalískur lífsstíll getur svo sannarlega sparað manni peninga þrátt fyrir að það sé í sjálfu sér ekki meginmarkmiðið. Í mínu tilfelli sást það helst á lægri gjöldum vegna hússins, afborganir af lánum, rafmagn og hiti og allt það. Eins þegar maður er farinn að velta þessu fyrir sér þá er ólíklegra að maður kaupi sér föt eða fjárfesti í einhverju öðru hugsunarlaust, ég er farin að hugsa meira um endingu og gæði þess sem ég kaupi og vil ekki fylla líf mitt af einnota varningi. “

Þú starfaðir lengi í fjölmiðlum, hvers vegna ákvaðstu að breyta til?

„Ég er búin að starfa sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu í 11 ár. Fyrir tveimur árum ákvað ég að fara í nám meðfram vinnu, bæði til að auka þekkingu mína og eins til þess að eiga meiri möguleika á vinnumarkaði ef ég vildi breyta til síðar meir. Ég eignaðist barn þegar ég átti eina önn eftir í náminu og var í fæðingarorlofi þegar ég útskrifaðist með MBA gráðu frá HR. Eftir útskrift gaf ég mér góðan tíma til að velta því fyrir mér hvað ég vildi gera og komst að því að runninn væri upp tími til breytinga. Ég sagði því upp vinnunni skömmu eftir að ég hóf að skrifa bókina án þess að vita hvað væri framundan.“

Ertu komin með nýtt starf?

„Já, ég var svo lánsöm að fá vinnu hjá Listasafni Reykjavíkur þar sem ég get nýtt námið mitt og fengist við áhugasvið mitt á sama tíma. Ég er að taka þar við sem markaðs- og kynningarstjóri. Ég hef alltaf heillast af listaheiminum – svo ég held að hér sé ég komin á rétta hillu. Listasafnið er í þremur húsum, á Kjarvalsstöðum, í Hafnarhúsinu og í Ásmundarsafni. Það verður í mínum verkahring að koma sýningunum á þessum þremur stöðum á framfæri. Fyrsta verkefnið er ótrúlega spennandi – í byrjun febrúar opnar risastór sýning á verkum eins magnaðasta listamanns þjóðarinnar, sjálfs Kjarvals. Þar er á ferðinni sýning sem enginn má missa af!“

Hvað ætlar þú að gera öðruvísi 2016 en þú gerðir 2015?

„Hvað verður ekki öðruvísi? Ég er á byrjunarreit í nýju lífi, fer úr því að vera námsmaður með ungbarn á stöðugu flakki um landið og heiminn í það að verða endurmenntaður mínímalisti í nýju starfi á kafi í listheiminum, stöðugt tvítandi um Kjarval og huldufólkið í myndunum hans!“

Áslaug Guðrúnardóttir hefur skrifað bók um mínímalískan lífsstíl.
Áslaug Guðrúnardóttir hefur skrifað bók um mínímalískan lífsstíl.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál