Ætlar sjálf að flúra á sér vinstri höndina

Hrafnhildur, eða Habba Nero líkt og hún er jafnan kölluð, …
Hrafnhildur, eða Habba Nero líkt og hún er jafnan kölluð, hefur lengi haft áhuga á húðflúrum. Ljósmynd / aðsend

Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir, eða Habba Nero líkt og hún er gjarnan kölluð, starfar sem húðflúrari á Íslenzku húðflúrstofunni. Hún segir röð tilviljana hafa ráðið því að hún leiddist út í bransann, þótt hún hafi haft áhuga á húðflúrum frá blautu barnsbeini.

 „Í rauninni ákvað ég ekki að gera þetta að starfi mínu fyrr en ég var búin að flúra þó nokkra vini og vandamenn undir handleiðslu Boff Konkerz,“ segir Habba, en Boff er sambýlismaður hennar. „Ég ákvað að taka mér ársfrí frá Listaháskóla Íslands til að ferðast með honum og aðstoða þegar hann vann á ýmsum húðflúrstofum í Evrópu og Ameríku sem gestaflúrari. Ég vingaðist við rosalega marga á ferðum okkar og fékk því mörg tækifæri til að æfa mig að húðflúra. Einn daginn áttaði ég mig á því að ég var hætt að flúra einungis vini og var farin að fá viðskiptavini sem höfðu séð verkin mín á samfélagsmiðlum. Þannig að í rauninni valdi ég ekki starfsferilinn heldur olli röð tilviljana því að ég leiddist út í bransann. Ég hef samt sem áður haft mikinn áhuga á húðflúrum alveg frá barnsæsku.“

Stíll Höbbu er talsvert frábrugðinn þeim sem flestir kannast við, en hún notast ekki við vél þegar hún flúrar. En hver er munurinn á aðferðunum tveimur?

„Hefðbundna vélaraðferðin virkar þannig að tattúnál er sett í vél með mótor sem hreyfir hana 50 til 3.000 sinnum á mínútu, en ég festi tattúnálina á prjón og pota blekinu í skinnið hvern punkt fyrir sig. Þaðan kemur nafnið „handpoke“. Punktastíllinn er einnig notaður af húðflúrlistamönnum sem nota vélar og kallast sá stíll „dotwork“ á ensku. Vélaraðferðin tekur oft styttri tíma, og það eru mjög margir stílar sem hægt er að framkalla með þeirri aðferð í flestum litum, á meðan handpoke-aðferðin er einhæfari og virkar best sem dotwork með svörtu bleki,“ bætir Habba við.

Habba segir að húðin grói mun hraðar þegar notast er við „handpoke“-aðferðina, sem geri það að verkum að sýkingarhætta er minni. Þar af leiðandi hefur fólk sem þjáist af blóð- eða húðsjúkdómum getað leitað til hennar til þess að fá flúr enda er áreitið á húðina mun minna.

Habba segir „handpoke“-flúr fljótari að gróa heldur en þau sem …
Habba segir „handpoke“-flúr fljótari að gróa heldur en þau sem gerð eru með hefðbundinni aðferð. Ljósmyndari / Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir

Lífræn form heilla

Þegar verk Höbbu eru skoðuð má glögglega sjá að hún hefur mikinn áhuga á dýrum, plöntum og rúnum. En má segja að það séu eftirlætismyndefnin hennar?

„Klárlega. Lífræn form heilla mig mikið og ég hef mikinn áhuga á flestu sem viðkemur dýra- og plöntulífinu. Sjávarverur eru í uppáhaldi hjá mér og skrýtin skordýr meðal annars. Galdrastafir og rúnir, þá sérstaklega gömlu Futhark-rúnirnar, eru í rosalegu uppáhaldi og hafa verið alla mína ævi. Afi minn átti rúnabók og í hvert sinn sem við lærðum um rúnir í skólanum þá sökkti ég mér í rúnalestur og skrift og lærði um galdrastafi sem notaðir voru á 16. öldinni á Íslandi. Þessi áhugi kom í bylgjum en náði hámarki þegar góð vinkona mín gaf mér bókina Galdraskræðu. Ég sökkti mér í þá bók og tók hana með í ferðalögin og fékk þá tækifæri til að flúra alls kyns galdrastafi á fólk hvaðanæva úr heiminum,“ segir Habba.

Mörgum leikur eflaust forvitni á að vita hvort húðflúrlistamenn leggi það í vana sinn að flúra sjálfa sig. Sjálf segist Habba hafa skreytt sjálfa sig, auk þess sem hún hefur ýmislegt spennandi í bígerð.

„Já, ég hef mjög gaman að því að flúra sjálfa mig. Ég hef reyndar aldrei gert mína eigin hönnun en hef fyllt inn í verk sem Boff hefur verið að gera á mig. Ég er að spara vinstri höndina þar til ég hef fyllt handlegginn en ætla þá að gera eitthvað magnað á hana sjálf.“

Starf húðflúrara er töluvert frábrugðið hefðbundnum skrifstofustörfum og viðfangsefnin eflaust mörg hver skrýtin. En hvað er það skrýtnasta sem Habba hefur flúrað.

 „Það koma margar skrýtnar beiðnir í tölvupóstinn minn. Oftast hef ég mjög gaman að þeim en sumar eru ekki alveg nógu góðar hugmyndir til að skila sér, því blað og húð eru tveir mjög ólíkir hlutir. Eitt sinn flúraði ég skrímslahaus innan á handlegg kúnna, gert eftir útskornum göngustaf sem hafði verið í fjölskyldu hans í yfir 100 ár. Hann æfir bardagaíþrótt sem hefur þá fornu hefð að flúra skrímsli á upphandlegginn til að hræða andstæðinginn. Mér fannst sagan á bak við það mjög áhugaverð,“ segir Habba, en hefur hún lent í því að þurfa að vísa einhverjum frá vegna galinnar hugmyndar?

 „Ég vísa þó nokkru fólki í burtu því handpoke-aðferðin og stíllinn minn einskorðast við ákveðinn ramma. Ég hef aldrei fengið glataðar hugmyndir, heldur frekar hugmyndir sem ganga ekki upp á húð eða sem myndu ekki skila sér vel í mínum stíl. Ef svo ber undir þá reyni ég oft að mæla með öðrum flúrara sem hefur þann stíl sem kúnninn er að leitast eftir. Stundum ganga hugmyndir hreinlega ekki upp og ég reyni þá að koma til móts við viðkomandi og gera eitthvað sem gengi betur upp sem húðflúr.“

Þetta er eitt minnisstæðasta flúrið sem Habba hefur gert, en …
Þetta er eitt minnisstæðasta flúrið sem Habba hefur gert, en það sameinar áhuga hennar á dýrum og galdrastöfum. Ljósmynd / Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir

Þrjósk og með háan sársaukaþröskuld

Habba skartar sjálf fjöldanum öllum af húðflúrum, enda fátt annað í stöðunni fyrir manneskju sem starfar sem húðflúrari. En þarf ekki að vera með háan sársaukaþröskuld til að þola öll flúrin?

 „Ég hugsa að ég hljóti að hafa ágætissársaukaþröskuld. Það gæti líka bara verið af því að ég er alveg einstaklega þrjósk, reyndar er ég viss um það. Það er óþægilegt í hvert sinn sem ég læt bæta við hjá mér,“ játar Habba, sem segist þó sífellt verða ánægðari með flúrin. „Fyrir mér er það yndislegt að geta borið falleg listaverk á líkamanum og að vera sáttari, og í mínu tilfelli sjálfstæðari, og stoltari í eigin skinni.“

Lífið er þó ekki eintóm vinna, enda er nauðsynlegt að slappa af og skemmta sér. En hvað finnst Höbbu skemmtilegast að gera í frístundum?

„Ég held það sé of margt til að telja upp. Ég hef rosalega gaman að því að ferðast, bæði innanlands sem utan. Það er líklega efst á listanum hjá mér. Annars geri ég voða hversdagslega hluti. Finnst af og til gaman að elda nýjar og girnilegar uppskriftir, fer stundum í sund með vinum og hlusta á góða tónlist. Þess á milli flakka ég á milli lélegra grínþátta á Netflix þegar mér leiðist eða rölti niður í Bíó Paradís ef ég vil gera einstaklega vel við mig. Ég og Boff búum í Reykjavík eins og er og við höfum mjög gaman af því að skreppa í stutta bíltúra utanbæjar og heimsækja vini okkar utan af landi, sérstaklega þegar við fáum erlenda vini í heimsókn sem ekki hafa komið til Íslands áður. Að sjálfsögðu er maður alltaf með blað og blýant inn á milli svo ég nái að halda hugmyndafluginu í hámarki. Þá er auðveldara að vera tilbúin í næsta vinnuverkefni.“

Fylgjast má með störfum Höbbu á vefsíðu hennar, sem og á vef Íslenzku húðflúrstofunnar.

Habba segist bæði þrjósk og með háan sársaukaþröskuld, en hér …
Habba segist bæði þrjósk og með háan sársaukaþröskuld, en hér sést Curly Moore flúra hana. Ljósmynd / aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál