„Alltaf verið mikið fyrir hrollvekjur“

Ævar tekur þátt í jólabókaflóðinu í ár.
Ævar tekur þátt í jólabókaflóðinu í ár. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jólabókaflóðið í ár er með besta móti, og mikill fjöldi spennandi bóka að koma út. Smartland fór því á stúfana og tók nokkra höfunda tali, svona rétt til að athuga með stemninguna.

Rithöfundurinn og vísindamaðurinn Ævar Þór Benediktsson var að senda frá sér nýja barnabók sem nefnist Þín eigin hrollvekja. Ævar á afmæli í desember, og segist því ekki komast í almennilegt jólaskap fyrr en eftir 9. desember. Eftir það sé þó mikil jólastemning.

Ævar sat fyrir svörum.

Hefur þú lengi verið með hugmyndina að bókinni Þín eigin hrollvekja í maganum, eða er þetta eitthvað sem þú hristir fram úr erminni?

„Hugmyndin kviknaði fyrir einhverjum árum og hefur lúrt í höfðinu á mér síðan þá. Ég hef alltaf verið mikið fyrir hrollvekjur og hlakkaði því mikið til að skrifa þessa bók. Nú þegar krakkar vita hvernig „Þín eigin-bækurnar“ virka eftir að hafa lesið Þína eigin þjóðsögu og Þína eigin goðsögu (þ.e. að lesandinn leikur aðalhlutverkið og ræður hvað gerist í bókinni með því að fletta fram og til baka), er hægt að leika sér meira með formið og gera bækurnar enn meira spennandi. Og þetta er auðvitað hrollvekja, sem þýðir að hún er miklu hættulegri en fyrri bækurnar í bókaröðinni!“

Hvert sækir þú innblástur?

„Í aðra höfunda. Ef ég fæ ritstíflu er gott að fylla á tankinn með því að finna sögur sem manni finnast frábærar og hafa haft áhrif á mann. Þetta geta verið sögur eftir fólk sem skrifar bækur, sjónvarpsþætti, kvikmyndir eða myndasögur, það skiptir ekki máli. Góð saga er góð saga.“

Hvar og hvernig finnst þér best að skrifa?

„Á kaffihúsum, með kvikmyndatónlist í eyrunum.“

Kápumynd nýjustu bókar Ævars Þórs.
Kápumynd nýjustu bókar Ævars Þórs. Kápumynd / Evana Kisa

Hvernig er að vera rithöfundur í desember?

„Það er mikið stuð og lítið stoppað.“

Hvernig líst þér á jólabókaflóðið í ár, er samkeppnin hörð?

„Mér líst gríðarlega vel á jólabókaflóðið í ár, bæði barnabækurnar sem og allar hinar. Ég hugsa ekkert út í samkeppnina, mér finnst bara frábært hvað við Íslendingar erum dugleg að skrifa og hvað íslenskir krakkar eru duglegir að lesa.“

Hvað hlakkar þú mest til að lesa?

„Vinur minn hann Emil Hjörvar var að gefa út fantasíuna Víghóla, sem ég er spenntur að lesa. Svo er spennubókaflokkurinn Rökkurhæðir eftir Mörtu Hlín og Birgittu Elínu að nálgast endalokin, eftir fjöldamargar bækur. Ég er spenntur að sjá hvernig þetta fer allt saman.“

Hvað finnst þér skemmtilegt að gera í frístundum, þegar þú ert hvorki að lesa né skrifa?

„Horfa á kvikmyndir og sjónvarpsþætti.“

Ert þú mikið jólabarn?

„Ég á afmæli í byrjun desember, þannig að jólaskapið fær ekki pláss fyrr en eftir 9. desember, en eftir það er auðvitað mikil jólastemning.“

Hvað finnst þér algerlega ómissandi yfir hátíðarnar?

„Laufabrauð – og nóg af því.“

Einhver lokaorð?

„Áfram barnabækur!“

Ævar Þór hefur alla tíð verið heillaður af hrollvekjum.
Ævar Þór hefur alla tíð verið heillaður af hrollvekjum. Ljósmyndari / Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál