Sneri aldrei baki í fangana

Þórarinn Freysson, rithöfundur og geðhjúkrunarfræðingur.
Þórarinn Freysson, rithöfundur og geðhjúkrunarfræðingur. Ljósmynd úr einkasafni

Þórarinn Freysson fékkst við tónlist á Íslandi áður en hann ákvað að söðla um, flytja til Englands og hefja störf við geðhjúkrun. Þórarinn segist alltaf hafa verið svolítil flökkusál, sem útskýrir hvers vegna líf tónlistarmannsins hentaði honum vel til að byrja með.

„Á einhverjum tímapunkti var komin þreyta í mann og mig langaði að taka mér hlé. Ég ákvað því að fara til Manchester og læra hljóðupptöku og hljóðblöndun. Það var nú tilviljun sem réði því að Manchester varð fyrir valinu. Planið var að klára tveggja ára nám og koma svo aftur heim til Íslands. En svo ílengdist ég á Englandi og þegar mig vantaði vinnu stóð mér til boða vinna í geðhjúkrunargeiranum sem sjúkraliði. Ég hef aldrei verið mikið fyrir að segja „nei“ við nýrri lífsreynslu þannig að ég ákvað að prufa þetta. Það endaði svo með því að ég menntaði mig sem geðhjúkrunarfræðingur og samhliða því vann ég í geðhjúkrunarfangelsum.“

Þórarinn segist alla tíð hafa heillast af spítalanum sem starfsvettvangi, en hann hafi þó ekki haft eirð í sér til þess að klára læknisnám. Þá hafði hann einnig reynslu af umönnun, en fjölskyldumeðlimur Þórarins átti við geðræn vandamál að stríða áður en hann flutti til Englands. Þar af leiðandi var stökkið ekki svo stórt úr tónlistinni og yfir í geðhjúkrunina.

Sneri aldrei baki í fangana

„Ég er nýbúinn að söðla um aftur og hættur að vinna í fangelsissjúkrahúsunum og farinn að vinna á bráðageðdeild á spítala, sem mér finnst bæði skemmtilegt og gefandi. Munurinn á þessu tvennu er mikill. Undir lokin, í fangelsisvinnunni, var ég hreinlega orðinn frekar smeykur. Við vorum undirmönnuð í erfiðri og hættulegri vinnu og fólk slasaðist og kom ekki til baka. Eiturlyf, og þó sérstaklega örvandi lyf voru orðin verulegt vandamál og lítið sem við starfsfólkið gátum gert til að stoppa það. Það eru líka margir vanar sem sitja enn í mér eftir þennan tíma. Til dæmis sneri maður aldrei baki í fólk í fangelsunum og þegar ég vinn á bráðadeildinni núna fæ ég enn smá kvíðatilfinningu á matmálstímum þegar hnífar og gaflar eru lagðir á borðið. Ég er satt að segja feginn að þessu tímabili í lífi mínu sé lokið.“

Þórarinn segir að starf geðhjúkrunarfræðinga sé afar fjölbreytt, og erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvað bíði manns þegar til vinnu er komið.

 „Maður veit svo sannarlega ekki hvernig dagurinn mun fara. Eina næturvaktina í sjúkrahúsfangelsinu, þegar var óvenju rólegt, ákváðum við til dæmis að sjá hvort hægt væri að sleppa út úr fangelsinu í gegnum fangelsisgarðinn. Til að gera langa sögu stutta tókst okkur það, þannig að nú hef ég bæði á samviskunni að hafa sloppið úr fangelsi og hafa kostað fangelsið stórfé í endurbótum á garðinum. En svo gat maður líka lent á degi þar sem var svo sannarlega ekki rólegt, það var mikil spenna í loftinu og ringulreiðin var stundum ansi mikil. Þá hugsaði maður oft með sér að ef allir sem voru að vinna á vaktinni fóru óslasaðir heim í lok hennar, frekar en á sjúkrahús með sjúkrabíl, var þetta góð vakt. Það var oft mikið adrenalín í gangi.“

Þórarinn var á dögunum að gefa út sína fyrstu bók, skáldsögu sem nefnist Hermaður. Hann segist alltaf hafa haft gaman af því að skrifa, þó að hann hafi aldrei litið á sig sem rithöfund fyrr en nú.

„Kannski, eins og með námið, hef ég loks eirð í mér til að sitja kyrr nægilega lengi til að skrifa bók. Þegar ég byrjaði að skrifa Hermann, bók sem ég er rosalega stoltur af, byrjaði þetta sem útúrsnúningur á biblíunni. Það er að segja, ég var að velta fyrir mér hvernig biblían yrði skrifuð ef hún væri færð í raunsærri mynd nær nútímanum. En ég er nú ekki trúaður maður og áhuginn á þeirri nálgun minnkaði þó enn sé eitthvað eftir af því í lokaútgáfu bókarinnar. Fljótlega fór sagan að taka á sig allt aðra mynd og oft á tíðum gat ég ekki skrifað jafn hratt og sagan birtist mér í höfðinu,“ segir Þórarinn og bætir við að starf hans á geðhjúkrunarfangelsinu hafi fært honum nokkrar hugmyndir sem fjallað er um í bókinni.

„Til dæmis er talað um fangelsisflótta, en sá hluti er byggður á sannri sögu. Ekki þó á flóttanum sem ég tók þátt í, heldur á raunverulegum flótta úr Rampton, öryggisfangelsi sem ég var í á tímabili. Ekki þó sem fangi,“ bætir Þórarinn við glettinn að endingu.

Þórarinn ætlar að fagna útgáfu bókarinnar, en hófið mun fara fram í verslun Eymundsson, Austurstræti, þriðjudaginn 15. nóvember. 

Fyrsta skáldsaga Þórarins nefnist Hermaður.
Fyrsta skáldsaga Þórarins nefnist Hermaður. Kápumynd bókarinnar Hermaður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál