Tengja saman bloggara og fyrirtæki

María (t.v.) og Tanja Ýr (t.h.) að skrifa undir samning …
María (t.v.) og Tanja Ýr (t.h.) að skrifa undir samning við Hildi sem er nú partur af Eylenda-teyminu.

Nýverið stofnuðu þær Tanja Ýr Ástþórsdóttir og María Hólmgeirsdóttir umboðs- og auglýsingaskrifstofu. Hugmyndin á bak við fyrirtækið er að þeirra sögn að tengja saman áhrifaríka einstaklinga á íslenskum samskiptamiðlum við fyrirtæki sem vilja ná beint til ákveðins markhóps eða viðskiptavina. „Á sama tíma og við aðstoðum fyrirtæki á persónulegan hátt við að koma sínum skilaboðum á framfæri erum við að skapa samfélag fyrir bloggara þar sem við höldum utan um sameiginlega hagsmuni og myndum sterkara tengslanet,“ segir Tanja Ýr.

Þetta byrjar allt saman vel og Tanja segir viðtökurnar hafa verið ansi góðar. „Vá! Viðtökurnar síðustu daga hafa vægast sagt verið gjörsamlega brjálaðar. Frá því að síðan opnaði fyrir tveimur dögum höfum við fengið ótrúlegt magn tölvupósts og símtala frá bæði spennandi fyrirtækjum sem vilja vita meira um Eylenda og ekki síður frá upprennandi bloggurum sem vilja vera með. Og að sjálfsögðu tökum við öllum fyrirspurnum fagnandi.“

Tanja segir tímabært að fyrirtæki af þessu tagi komi fram á sjónarsviðið. „Við María erum engir nýgræðingar í þessum efnum þar sem við höfum báðar byggt upp fleiri árangursrík vörumerki með hjálp samskiptamiðla á síðustu árum. Fyrst og fremst langar okkur að hjálpa okkar bloggurum að komast á þann stað sem þeir vilja vera á. Allir þeir einstaklingar sem við tókum inn í teymið til að byrja með eru virkilega færir og með mikla sérstöðu í því sem þeir eru að gera. Hins vegar höfðu margir þeirra ekki tækifæri til þess að fá greitt fyrir vinnuna sína svo Eylenda er fullkominn vettvangur fyrir bloggara til þess að ná markmiðum sínum og fyrir fyrirtæki að ná til réttu einstaklinganna.“

Vel hægt að taka mark á keyptri umfjöllun

Undanfarin ár hefur almenningur velt fyrir sér trúverðugleika á bak við umfjöllun bloggara um hinar ýmsu vörur. Spurð hvort fólk geti tekið mark á umfjöllun og meðmælum bloggara þegar þeir fá greitt fyrir að skrifa um ákveðna hluti segir Tanja svo vera. „Ef eitthvað er þá held ég að persónuleg umfjöllun frá bloggara eða fyrirmynd sem þú kýst að fylgjast með og þekkir vel sé þúsundfalt traustari, einlægari og eigi betur við þig en nokkur auglýsing í sjónvarpi eða blaði. Þetta er betri auglýsing fyrir fyrirtæki og neytendur og án nokkurs vafa það sem koma skal. Það má því líka auðvitað bæta við að bloggararnir hjá Eylenda velja sér þau fyrirtæki sem þeir vilja vinna með og fjalla aldrei um vöru sem þeir eru ekki ánægðir með eða vilja ekki fjalla um.“

Þetta er fyrsta skrefið í því sem koma skal að mati Tönju. „Já, á næstu árum munum við sjá það hvernig einstaklingar (bloggarar, fyrirmyndir og fleira) koma til með að spila stærra og stærra hlutverk á auglýsingamarkaði. Þetta eru virkilega spennandi tímar og það eru forréttindi fyrir okkur að vera hluti af því að leiða þessa þróun.“

Áhugasamir geta kynnt sér Eylenda nánar á slóðinni www.eylenda.com og séð hvaða bloggarar eru með í teyminu.

Brot af þeim bloggurum sem eru á Eylenda.
Brot af þeim bloggurum sem eru á Eylenda. Skjáskot af eylenda.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál