30 ára draumur rættist 2016

Brynja Dan með blóðmóður sinni.
Brynja Dan með blóðmóður sinni.

Brynja Dan, markaðsstjóri S4S, sýndi mikið hugrekki er hún deildi langþráðum draumi sínum um að hitta blóðmóður sína í þættinum Leitin að upprunanum með þjóðinni fyrir skömmu. Brynja er uppfull af þakklæti eftir þetta viðburðaríka ár sem breytti lífi hennar til frambúðar.

Hápunktur ársins? 
Augljósasta svarið er að sjálfsögðu að hitta móður mína sem gaf mig til ættleiðingar fyrir þrjátíu og einu ári og systkini mín tvö, og bara öll ferðin til Sri Lanka. Það að eignast heila aðra fjölskyldu og kynnast hinni litlu eyjunni var ótrúlegt. 

Brynja í faðmi fjölskyldunnar.
Brynja í faðmi fjölskyldunnar.

Afrek ársins?

 
Líklega að hafa loksins loksins loksins getað og hafa drifið í því að kaupa íbúð. Það er svo góð tilfinning að ég get eiginlega bara ekki lýst því. Brynjan þarf mikið öryggi og það er eitthvað notalegt við að einhver annar ráði því ekki hvenær maður þarf að flytja út.

Brynja er dugnaðarforkur en hún starfar sem markaðsstjóri S4S.
Brynja er dugnaðarforkur en hún starfar sem markaðsstjóri S4S.

5 skemmtilegustu snapchat-ararnir á árinu að þínu mati?

Desi Perkins. Hún er drottingin. Svo get ég eiginlega ekki gert upp á milli allra hinna. Vil helst ekki valda vinaslitum.

Fyndnasta atriði ársins?

Örugglega þegar mamma mín í Sri Lanka lyfti Mána syni mínum upp sem er 8 ára og líklega jafnstór og -þungur og hún og hélt á honum inn í húsið. Það hefur ekki verið haldið á barninu síðan hann var svona fjögurra ára gamall – svipurinn á honum var óborganlegur.

Máni litli hamingjusamur með nýju fjölskylduna.
Máni litli hamingjusamur með nýju fjölskylduna.

Skrítnasta upplifun þín 2016?

Að elska fólk samstundis sem ég hef aldrei hitt áður og að sjá fólk sem er líkt mér! Það var magnað. Og að fá símtal frá Kára Stefáns og knús frá ókunnugum úti á götu eftir þættina. Það er nýtt en yndislegt.

Uppáhaldsdrykkurinn þinn þetta árið?

Papaya-drykkur, nei það er líklega það versta sem ég hef smakkað. En okkur var gefið svoleiðis alla daga í Sri Lanka-ferðinni af heimamönnum og við drukkum hann í sex daga fyrir kurteisissakir, eða þóttumst að minnsta kosti gera það. Hann gæti hafa endað í beðinu úti í garði nokkrum sinnum.  En sjöunda daginn var barnið búið að fá nóg þegar frænka hans réttir honum enn eitt glasið af papaya-drykknum og sagði; „Eee no thanks. My mom says it tastes like poop.“ Ég hef sjaldan fundið svitann spretta jafnhratt fram á enninu. Ég hefði satt best að segja alveg þegið bara eina Pepsi Max í dós.

Árið hefur vægast sagt verið viðburðaríkt hjá Brynju.
Árið hefur vægast sagt verið viðburðaríkt hjá Brynju.

Mest eldaði rétturinn í eldhúsinu?

Æi það verður nú að viðurkennast að ég er lítið í því að elda. Asískt verður oftast fyrir valinu, er ekki hvort eð er allt sem ég elda asískt, hvort sem það er grjónagrautur og slátur eða eitthvað annað?


Uppáhaldslagið þitt á árinu? 

Let it go með James Bay er klárlega lagið mitt í ár. Svo táknrænt.


Uppáhaldsnetsíðan þín? 

Skor.is en ekki hvað. Aldrei nóg af skóm. Ég viðurkenni að þetta er vandamál, ég hef bara enn ekki fundið Facebook-grúppu fyrir sömu fíkla.


Besta bók sem þú last á árinu?

Ikea-bæklingurinn líklega. En svona fyrir utan hann þá les ég nú ekki mikið. En ég verð samt að mæla með 7 habits eftir Stephen R. Covey. Þar sem ég þarf að stjórna, þá er fínt að læra hvernig er best að gera það. 


Fallegasta augnablik ársins? 

Ætli það sé nú ekki bara þegar mamma mín tók mig í fangið þegar hún hittir mig fyrst og knúsaði mig eins og ég hefði aldrei farið frá henni, og hvernig þau knúsuðu og kysstu mig og Mána minn og hann þau til baka var einstakt.

Töffari!
Töffari!

Mest krefjandi verkefni ársins? 

Að leggja af stað í svona ferðalag algjörlega varnarlaus og berskjölduð, að þurfa að kveðja þau eftir aðeins viku samveru, að opna mig fyrir alþjóð og að þurfa svo að þegja í níu mánuði yfir nýju fjölskyldunni minni og öllu saman.


Þakklæti ársins? 

Hvar á ég að byrja! Ég er þakklát  fyrir að hafa fengið allt þetta yndislega nýja fólk inn í líf mitt, fyrir það að foreldrar mínir hafi hvatt mig til þess að leita að blóðmóður minni. Ég er þakklát blóðmóður minni fyrir að hafa gefið mér þetta yndislega líf, fyrir vini og vandamenn sem stóðu svo þétt upp við bakið á mér í þessu ferli að ég gat ekki annað en haldist upprétt allan tímann og þá sérstaklega fyrir einn þolinmóðan sem þarf að díla við mig alla daga, hvenær sem er og hvar sem er. Ég er ekki auðveldasta týpan skal ég viðurkenna. Ég er þakklát fyrir endalaust góð viðbrögð við þáttunum okkar og öll þau tækifæri sem þeir hafa opnað á fyrir mig. Fyrir að ein mín allra besta og kletturinn minn hafi vonandi unnið slaginn við krabbameinið fyrir fullt og allt. Og síðast en ekki síst er ég þakklát henni Sigrúnu Ósk og þeim sem fóru með mér út – fyrir að hafa lagt í þetta ævintýri með mér og látið þrjátíu ára draum rætast! Ríkari manneskju er erfitt að finna. 

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál