Setti mynd af dældinni á Facebook

Myndin hefur vakið gríðarleg viðbrögð á veraldarvefnum.
Myndin hefur vakið gríðarleg viðbrögð á veraldarvefnum. Ljósmynd/Facebook.com

„Það er auðvelt að missa af lítilli dæld í brjóstinu þegar við þeysumst áfram á morgnana og undirbúum daginn,“ skrifar hin 42 ára gamla Lisa Royle í færslu á Facebook þar sem hún birtir mynd af öðru brjósti sínu. Royle greindist nýlega með brjóstakrabbamein, en lítil dæld í brjóstinu kom henni á sporið. Hún gekkst undir brjóstnám á mánudaginn. Með myndbirtingunni vildi hún hvetja konur til að vera meðvitaðar um hættuna á brjóstakrabbameini og biðlar til þeirra að gefa sér tíma til að skoða brjóstin með það í huga. „Takið tíma til að skoða á ykkur brjóstin, það gæti bjargað lífi ykkar,“ skrifar hún við myndina, sem hefur verið deilt yfir 70 þúsund sinnum.

Royle mun bráðlega gangast undir lyfja- og geislameðferðir, en hún er vongóð um að ná fullum bata. „Hún er falleg og frábær móðir, dóttir, systir, eiginkona og frænka,“ sagði systir hennar í samtali við Today.com. „Hún er mjög bjartsýn.“

Ok so I never thought I'd post a boob picture on Facebook but I thought I would before it gets chopped off next week....

Posted by Lisa Royle on Monday, May 11, 2015

Fjölbreytt einkenni

Á vefnum brjóstakrabbamein.is eru talin upp ýmis einkenni sem geta verið merki þess að mein sé til staðar. Meðal þeirra eru bólgur í brjósti, erting eða dældir, verkir í brjósti eða geirvörtu, roði, flögnun eða þétting geirvörtu eða brjósthúðar, útferð úr geirvörtu og hnúður í handarkrika.

Í samtali við Today.com bendir Anees Chagpar, deildarstjóri Brjóstamiðstöðvarinnar á Yale New-Haven-sjúkrahúsinu, þó á að um 70 til 80 prósent tilfella í Bretlandi og Bandaríkjunum greinist áður en húðbreytingar verða eða tilfinnanlegir hnúðar myndast. Aftur á móti sé nauðsynlegt að vera meðvitaður um einkennin og vakandi fyrir því ef þau láta á sér kræla.

Hin breska Royle áætlaði aldrei að myndin hennar fengi þá miklu athygli sem raun ber vitni, en að sögn systur hennar er hún þó ánægð með viðbrögðin. „Svo lengi sem þetta eykur meðvitund fólks um hugsanleg einkenni er hún sátt.“

Frétt Today.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál