Mega þungaðar konur stunda líkamsrækt?

Mega allar barnshafandi konur stunda þjálfun?
Mega allar barnshafandi konur stunda þjálfun? Kristinn Ingvarsson

Á heimasíðu Hreyfingu má finna alls konar fróðleik um líkamsrækt og hreyfingu frá þjálfurum. Spurningar er varða þjálfun á meðgöngu brenna á mörgum og þeim er svarað á vef Hreyfingar. „Engar sannanir liggja fyrir um að æfingar á meðgöngu geti skaðað fóstrið. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að þjálfun á meðgöngu auki líkur á fósturláti, fæðingargalla eða fæðingu fyrir tímann,“ segir meðal annars.

Mega allar barnshafandi konur stunda þjálfun?
Flestar konur mega stunda reglubundna þjálfun á meðgöngu, þó henta þeim ekki allar æfingar. Allar konur ættu að ráðfæra sig við sinn lækni og/eða ljósmóðir áður en byrjað er að stunda æfingar.

Geta æfingar skaðað fóstrið á einhvern hátt?
Engar sannanir liggja fyrir um að æfingar á meðgöngu geti skaðað fóstrið. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að þjálfun á meðgöngu auki líkur á fósturláti, fæðingargalla eða fæðingu fyrir tímann.

Hverjir eru kostir þess að stunda reglubundna þjálfun á meðgöngu?
Þjálfun getur spilað mikilvægt hlutverk og skilað góðu heilsufari og vellíðan á meðgöngu. Sýnt hefur verið fram á að konur sem stunda þjálfun á meðgöngu jafna sig fyrr eftir fæðingu og losna fyrr við aukakílóin. Auk þess hefur þjálfun jákvæð áhrif á svefn og skapferli. Sumar kannanir hafa leitt í ljós að fæðingin gengur betur og hraðar hjá konum sem hafa stundað reglulega þjálfun á meðgöngu og þær þurfa síður deyfilyf. Þjálfun getur auk þess minnkað líkur á algengum fylgifiskum meðgöngunnar, s.s. harðlífi, bakverkjum, þreytu, þrota í fótum og æðahnútum.

Hverjar eru helstu leiðbeiningar um þjálfun á meðgöngu?
Eftirfarandi leiðbeiningar eiga við ef meðganga er eðlileg og þú hefur rætt við þinn lækni um að þú megir stunda reglulega þjálfun.

Regluleg þjálfun a.m.k. 3x í viku er æskileg.
Á öðrum og þriðja hluta meðgöngu er ekki æskilegt að gera æfingar liggjandi á baki því það getur hindrað blóðflæði til fylgjunnar.
Gættu þess að álag við æfingar sé ekki svo mikið að þú verðir uppgefin eða standir á öndinni. Það er merki um að líkaminn og fóstrið fái e.t.v. ekki nægjanlegt súrefni.
Forðastu æfingar sem gætu valdið áverka á kvið.
Drekktu nóg af vatni fyrir æfingu og á meðan æfingu stendur.
Bættu við aukinni slökun í æfingakerfið þitt.
Neyttu hollrar fæðu og nóg af ávöxtum, grænmeti og flóknum kolvetnum.

Hvaða tegund þjálfunar er best á meðgöngu?
Flestar barnshafandi konur geta haldið áfram líkamsrækt samkvæmt því æfingakerfi sem þær eru vanar. Þó er stundum þörf á að aðlaga það að einhverju leyti breyttu líkamlegu ástandi. Hlustaðu á líkama þinn og hættu þegar þú ert orðin of þreytt eða finnur fyrir svima, höfuðverk, vöðvaþreytu, ógleði, verk fyrir brjósti eða samdráttarverkjum. Létt og miðlungserfið þjálfun getur haft mjög jákvæð áhrif á líðan þína og lund.
Almenna reglan er sú að þú getur verið óhrædd við að stunda ýmiss konar líkamsþjálfun. Hjólreiðar, sund, göngur, létt skokk, mjúk þolfimi, styrktaræfingar og létt tækjaþjálfun er allt óhætt að stunda mestan hluta meðgöngunnar. Skokk og hjólreiðar henta þó ekki öllum á síðari hluta meðgöngunnar. Ekki er mælt með því að stunda boltaíþróttir, fimleika, skíði eða útreiðar á meðgöngu.

Þjálfarinn Sophie Guidolin æfir á meðgöngunni.
Þjálfarinn Sophie Guidolin æfir á meðgöngunni. Instagram@ sophie_guidolin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál