Þetta vildi ég að einhver hefði sagt mér um álfabikarinn

Margar konur kjósa að nota álfabikar í stað dömubinda eða …
Margar konur kjósa að nota álfabikar í stað dömubinda eða túrtappa. Ljósmynd / Getty Images

„Ég var 12 ára gömul þegar ég byrjaði fyrst á blæðingum. Á meðan mamma óskaði mér til hamingju með að vera orðin kona hugsaði ég að lífi mínu gæti allt eins verið lokið. Ekki skánaði það svo þegar ég sat með henni inni á baði á meðan hún kenndi mér að nota dömubindi. Mig langaði sko ekkert að þurfa að hafa ,,bleiu“ í nærbuxunum í hverjum mánuði það sem eftir yrði,“ skrifar Helga María Ragnarsdóttir í sínum nýjasta pistli, en hún heldur úti vefsíðunni Veganistur ásamt systur sinni, Júlíu Sif.

„Ég þoldi ekki þennan tíma mánaðarins, ekki aðeins vegna hræðilegu túrverkjanna sem ég fékk í hvert skipti, heldur einnig vegna þess að dömubindi þóttu mér óþolandi. Þau voru svo þykk og mér fannst alltaf eins og þau sæjust í gegnum buxurnar mínar.“

„Þið getið því trúað því hversu ánægð ég var þegar ég uppgötvaði túrtappann. Þegar ég gerðist vegan fór ég þó að setja spurningamerki við túrtappana vegna þess að þeir eru yfirleitt prófaðir á dýrum, hvort sem það eru tapparnir sjálfir eða klórinn sem bómullin er þrifin upp úr. Túrtappar eru heldur ekkert svakalega umhverfisvænir sem truflaði mig líka svolítið. Ég vissi samt ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í þessu og hélt áfram að nota þá í von um að finna einhverja betri lausn,“ játar Helga María, sem að lokum ákvað að festa kaup á álfabikar.

Helga María kunni þó ekki inn á álfabikarinn og hafði því næstum gefið hann upp á bátinn. Hún ákvað á endanum að gefa honum tækifæri, og sér ekki eftir því.

Helga María setti því niður á blað nokkra hluti sem vert er að hafa í huga þegar kemur að notkun álfabikars og hún vildi að einhver hefði sagt henni á sínum tíma.

  1. „Á bikarnum er stilkur til þess að auðvelt sé að ná honum út. Stilkurinn er hinsvegar of langur fyrir margar konur og þá þarf að klippa hann til, maður á nefnilega ekki að finna neitt fyrir bikarnum þegar hann er kominn upp.“
  2. „Það þarf að brjóta bikarinn saman til þess að koma honum inn, það eru til nokkrar aðferðir sem taldar eru bestar til þess. Þetta getur tekið smá æfingu. Mér finnst best að setja hann upp á meðan ég sit á klósettinu eða fara niður í hnébeygju.“
Hér má sjá hvernig best er að setja álfabikarinn upp.
Hér má sjá hvernig best er að setja álfabikarinn upp. Skjáskot / Veganistur.is
  1. „Þegar bikarinn er kominn inn þarf hann að opnast vel svo það leki ekki framhjá. Þetta er það sem mér fannst erfiðast. Maður þarf að vera svolítið þolinmóð við þetta.“
  2. „Bikarinn getur færst lengra upp í leggöngin og því getur verið svolítið erfitt að ná honum úr. Fyrst þegar ég lenti í þessu fékk ég vægt taugaáfall. Ég komst samt fljótt að því að maður þarf engar áhyggjur að hafa. Hann fer aldrei svo langt að ekki sé hægt að ná honum niður. Það er nóg að nota kviðvöðvana aðeins og ýta honum þannig niður þar til maður nær taki á honum. Þegar maður nær taki á bikarnum klípur maður um endann á honum til þess að hleypa inn lofti. Þannig er auðveldast að ná honum út.“
  3. „Þegar maður tæmir hann en ætlar að setja inn aftur er best að hella úr honum í klósettið, skola hann með köldu vatni og svo með volgu vatni og örlítilli ilmefnalausri sápu ef maður vill. Í aðstæðum þar sem maður þarf að tæma hann þar sem enginn vaskur er í einrúmi, til dæmis á almenningssalernum, er nóg að þurrka hann með pappír eða jafnvel vera með vatnsflösku með sér sem hægt er að nota til þess að skola hann, svo þrífur maður hann bara betur þegar heim er komið. Ef maður ætlar ekki að nota hann aftur strax er best að þvo hann og geyma svo í pokanum sem hann kemur í.“
  4. „Hjá sumum getur hann lekið örlítið og þá getur verið gott öryggisins vegna að vera með innlegg. Ég hef ekki lent í þessu sjálf en ég hef heyrt að sumar konur lendi í því. Það er mikilvægt að læra á blæðingarnar sínar og finna hversu oft maður þarf að tæma. Fyrir þær sem vilja ekki nota einnota innlegg er hægt að kaupa taubindi og einnig sérstakar nærbuxur fyrir konur á blæðingum sem gerðar eru til þess að leka ekki.“
  5. „Það þarf alls ekki að tæma bikarinn í hvert sinn sem maður fer á klósettið og maður getur vel haft hann yfir nótt án þess að hafa áhyggjur af því að það sé óhollt eða hættulegt. Óhætt er að hafa bikarinn í allt að 12 klukkustundir í einu. Mælt er með því að tæma hann tvisvar til fjórum sinnum á sólarhring og það fer alfarið eftir því hversu mikið blæðir hjá hverjum og einum.“

Pistilinn í heild sinni má lesa hér.

Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur halda úti bloggsíðunni Veganistur.
Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur halda úti bloggsíðunni Veganistur. Ljósmynd / Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál