„Þú þarft ekki að gerast vegan til að ná árangri“

Gurrý segir að fínt sé að fara á námskeið, fá …
Gurrý segir að fínt sé að fara á námskeið, fá sér þjálfara eða fara í fjarþjálfun þegar koma á sér af stað í ræktinni. Ljósmyndari / Eggert Jóhannesson

Guðríður Torfadóttir, eða Gurrý eins og hún er jafnan kölluð, er vel að sér í heilsumálum enda starfar hún sem þjálfari hjá Reebok. Þar að auki kannast eflaust margir við hana af skjánum, en hún hefur hjálpað keppendum Biggest Loser Ísland að komast í form.

Gurrý viðurkennir að hafa borðað og sofið of mikið yfir hátíðirnar og að fyrstu dagarnir eftir jólin hafi verið dálítið strembnir eins og oft vill verða á þessum árstíma. Hún gaf sér þó engu að síður tíma til að sitja fyrir svörum.

Hvernig er best að koma mataræðinu á rétt ról eftir allt jólaátið, saltið og sykurinn?

„Mér finnst best að koma öllu í rútínu, svefn, máltíðum, vinnu og æfingum. Þegar það er komið þá fylgir mataræðið bara með. Ég mæli ekkert endilega með að fólk taki fyrstu vikurnar í janúar á hnefanum, heldur gefa sér tíma til að komast í heilsugírinn. Svo er bara að harka af sér ef það kemur hausverkur, þreyta og annað slen. Óþarfi að væla yfir því.“

Nú flykkist fólk í ræktina eftir allt jólasukkið, hvað er best að gera til að springa ekki á limminu?

„Bara byrja rólega og ekki ætla sér að gera allt í janúar. Best er að setja sér langtímamarkmið fyrir árið 2017 og taka svo eitt skref í einu og eitt kíló í einu ef fólk þarf að léttast.“

Hvaða ráðleggingar hefur þú fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref?

„Fá aðstoð og ráðleggingar með æfingarnar. Fínt að fá sér þjálfara, fara á námskeið eða í fjarþjálfun. Eins eru margir hópatímar sem henta byrjendum mjög vel. Eitt í viðbót, ekki mæta í fyrsta skipti í líkamsræktarsal á háannatíma sem er frá klukkan 17:30 – 19. Betra er að koma á aðeins rólegri tíma, til dæmis eftir kvöldmat, eða frá 8-16. Fá smá næði til að læra á stöðina og þá verður þetta ekkert mál.“

En fyrir þá sem þurfa bara smá spark í rassinn?

„Bara koma sér af stað, gera eitthvað skemmtilegt. Sjálf er ég spennt fyrir nýjum tímum í Reebok sem heita Time under Tension og Fitness Box-námskeiði sem verður klikkað.“

Hvernig er æfingum hjá þér sjálfri háttað?

„Sjálf er ég að æfa í tækjasal fjórum sinnum í viku og ætla taka námskeið í hjólaþjálfun og mæta betur en ég gerði fyrir áramót. Stefnan er svo að geta hjólað úti án þess að þurfa að taka strætó heim á miðri leið.“

Hvað færð þú út úr líkamsrækt?

„Líkamsrækt er bara svo stór hluti af lífi mínu að ég gæti ekki án hennar verið. Ég verð bara að lyfta lóðum, stunda þolþjálfun og jóga. Ég elska tilfinninguna sem fylgir því að æfa og vera í góðu formi.“

Hvað borðar þú dags daglega?

„Flesta daga borða ég steikt egg, þeyting með próteini, spínati mangó og lárperu, chia-graut með hindberjum og kakó, ávexti, kjúkling, fisk, sætar kartöflur og möndlur. Ég þarf ekki mikið meira.“

En þegar þú vilt gera vel við þig?

„Góður bragðarefur klikkar aldrei.“

Eitthvað sem þú vilt bæta við að lokum?

„Pössum okkur að flækja ekki einfalda hluti eins og hvað við eigum að borða. Þú þarft ekki langar uppskriftir, fæðubótarefni eða að gerast vegan til að ná árangri. Svo æfum við og borðum hollt til þess að vera hraust og geta lifað lífinu án óþarfa lífsstílssjúkdóma.“

Gurrý segir að það þurfi ekki að flækja einfalda hluti.
Gurrý segir að það þurfi ekki að flækja einfalda hluti. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál