„Þetta verður aldrei auðveldara“

Sólveig Sigurðardóttir hefur náð miklum árangri í crossfit á nokkrum …
Sólveig Sigurðardóttir hefur náð miklum árangri í crossfit á nokkrum árum.

Sólveig Sigurðardóttir keppir í annað sinn í liðakeppni á heimsleikunum í crossfit í sumar. Sólveig er komin í fremstu röð þrátt fyrir að hafa haft lítinn íþróttabakgrunn þegar hún byrjaði að æfa crossfit fyrir nokkrum árum. 

Hvenær og hvernig kom það til að þú byrjaðir að æfa crossfit? 

Ég fór í skiptinám til Spánar árið 2012 og þegar ég kom heim vildi ég losna við nokkur aukakíló sem höfðu safnast saman yfir árið. Frænka mín var þá nýbyrjuð í einhverju sem hét crossfit og ég ákvað að slá til og prófa. Ég fann strax að þetta var eitthvað fyrir mig og áhuginn varð mikill mjög snemma. Ég hef engan sérstakan íþróttabakgrunn. Þegar ég var yngri prófaði ég allar íþróttir sem voru í boði á Íslandi og áhuginn minnkaði alltaf eftir nokkra mánuði í íþróttinni, svo ég endaði alltaf á að hætta bara í staðinn fyrir að gefa þeim séns. 

Hvað er svona skemmtilegt við crossfit?

Það sem mér finnst skemmtilegast við crossfit er að þessi íþrótt er sífelld áskorun. Þetta verður aldrei auðveldara. Ef einhver æfing er orðin auðveldari þá þarftu bara að gera hana hraðar. Crossfit tvinnar saman þol og styrk á mjög skemmtilegan máta þar sem þú þarft að geta verið sterkur þótt þú sért þreyttur. Mér finnst íþróttin líka draga fram það besta í manni á flestum sviðum. Hún dregur fram keppnisskap í rólegustu manneskjunum og fær fólk til að prófa hluti sem það hélt það gæti aldrei gert. Þegar ég byrjaði í crossfit kunni ég ekki að gera upphífingar eða labba á höndum. Svo ákvað ég að keppa á Íslandsmótinu eftir að hafa æft í ár og þá var ein greinin handstöðulabb. Ég hafði tvær vikur til stefnu en aldrei á ævinni lært að labba á höndum. Með smá þrjósku og þrautseigju lærði ég grunninn að handstöðugöngu á tveimur vikum og gat bjargað mér á mótinu.

Liðið fangað vel eftir að hafa tryggt sér rétt til …
Liðið fangað vel eftir að hafa tryggt sér rétt til að keppa á heimsleikunum.

Hvernig er liðsandinn í liðinu?

Hann er virkilega góður. Við erum öll miklir vinir og æfum mikið saman. Við þekkjum veikleika og styrkleika hvert annars og styðjum við bakið á hvert öðru ef einhver á erfitt í einhverri grein. Við gerum okkur grein fyrir því að liðið er ekki sterkara en veikasti hlekkurinn í hverri æfingu fyrir sig og erum alltaf tilbúin að taka sem best á því.

Hvernig var að taka þátt á heimsleikunum í fyrra?

Það var sjúklega gaman. Ég var búin að fylgjast með heimsleikunum á netinu síðastliðin tvö ár og alltaf hugsað hversu geggjað það væri að keppa í sólinni í Los Angeles með öllum þessum heimsklassa crossfitturum. Svo bauðst tækifærið og þetta er ein skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í. Upplifunin og apparatið í kringum þetta var alveg hrikalega flott og verður seint toppað.

Hvernig gengur að tvinna saman miklar æfingar og vinnu?

Ég kláraði menntaskólann fyrir rúmu ári síðan og hef ekki enn þá fundið mér nám sem mig langar í. Ég ákvað eiginlega eftir menntaskólann að fókusa meira á æfingarnar og sjá hvað myndi gerast. Ég var samt í 80% kvöldvinnu þannig ég nýtti dagana í að æfa og fór svo í vinnuna á kvöldin. Það heldur betur borgaði sig og ég var ein þrjátíu kvenna í Evrópu/Afríku sem komst inn á Evrópuleikana í crossfit í júní. Ég afþakkaði samt boðið og keppti með liðinu mínu í stað þess að fara einstaklings. Núna var ég að hætta í kvöldvinnunni og er byrjuð að þjálfa fleiri tíma í Crossfit Reykjavík sem gefur mér enn þá meira svigrúm til þess að æfa og ég er mjög spennt að sjá hvert það leiðir mig.

Hvernig og hvað æfirðu mikið í hverri viku? 

Ég fylgi prógrami sem heitir The Training Plan og það eru tvær æfingar á dag, fyrir og eftir hádegi, 5x í viku. Hina tvo dagana notum við í að hreyfa okkur létt og passa að vöðvarnir stífni ekki upp eftir æfingar vikunnar. Ef ég er að fara að keppa tek ég nokkra aðeins rólegri daga fyrir og leyfi líkamanum að jafna sig á álaginu.

Sólveig segir crossfit vera sífellda áskorun.
Sólveig segir crossfit vera sífellda áskorun.

Áttu þér uppáhaldsæfingu?

Mér finnst flest allar æfingar sem innihalda þunga lyftingarstöng mjög skemmtilegar. Ég hef mjög gaman af því að lyfta þungt, hvort sem það er inn í æfingu eða bara sér.

Verðurðu aldrei löt og nennir ekki á æfingu?  

Jú það koma dagar þar sem líkaminn og hausinn eru ekki alveg til staðar. En það skiptir máli að vita hvenær þú þarft í alvörunni að slaka á og taka frí eða hvort þú sért bara latur. Þá er gott að hafa æfingafélaga sem láta þig ekki komast upp með neitt bull. Og maður er alltaf glaður eftir á.  

Hvað gerirðu til þess að slaka á og gera vel við þig?

Ég er mikið fyrir að komast út úr bænum og labba fjöll eða bara fara í göngutúr, það slakar á hausnum. Ég geri svo bara vel við mig með góðum mat og desert einu sinni í viku.

Skiptir mataræðið málið þegar maður er að æfa svona mikið? 

Mataræðið skiptir virkilega miklu máli og ég komst almennilega að því eftir heimsleikana í fyrra. Þá ákvað ég að hafa samband við næringarþjálfara í Ameríku og bað hann um að hjálpa mér með næringu. Þá byrjaði ég að vigta matinn minn og passa að borða rétt hlutföll af próteini, kolvetnum og fitu. Það má segja að þá hafi hlutirnir byrjað að gerast. Ég léttist helling og styrktist í leiðinni. Gat lyft þyngra en líkamsþyngdaræfingarnar urðu léttari í leiðinni. 

Ég borða mjög mikið það sama dag eftir dag. Á milli æfinga fæ ég mér einföld kolvetni, smá fitu og prótein. Eftir æfingar og á kvöldin fæ ég flókin kolvetni, fitu og prótein. Svo rétt áður en ég fer að sofa fæ ég mér Casein-prótein (hægmeltandi prótein), hnetusmjör og kolvetni. Ég fæ eina svindlmáltíð á viku og nýti hana til fulls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál