Þetta gerist ef þú heldur áfram í sykurleysi

Gunnar Már er höfundur bókanna Hættu að borða sykur og …
Gunnar Már er höfundur bókanna Hættu að borða sykur og hveiti og LKL lífsstíllinn svo dæmi séu tekin.

„Ég vona að þú hafir náð að stíga skrefið og minnkað sykur í mataræðinu þennan tíma sem Sykurlaus september hefur varað. Þú ert örugglega enn að vinna í mörgum hlutum en vonandi hefurðu líka sigrast á öðrum enda markmiðið að vera um 80% tímans í góðum takti. Það eru auðvitað kostir og gallar við að hætta að borða sykur. Ég vil ítreka kostina og hvers vegna það er viturlegt að halda áfram á þessari braut og hérna er nokkrir punktar,“ segir Gunnar Már Kamban í sinni nýjustu grein um sykurleysi en hann hefur verið lesendum innan handar í Sykurlausum september á Smartlandi: 

Sparaðu peninga

Ef þú tekur það saman hversu mikið gos og sælgæti er að kosta þig á ári þá er ég nokkuð viss um að summan gæti komið þér allavega eitthvað áleiðis til heitu landana ef ekki alla leið ef þú myndir spara upphæðina. Þó að sykur sé ódýrt hráefni eru sælgæti og sykraðar vörur ekki ódýrar þegar maður skoðar kílóaverðið og setur það í samhengi við „alvöru mat“. Kílóaverð á hinum ýmsu tegundum súkkulaðis er oft á milli 3 og 4 þúsund krónur sem er á pari við fína steik.

Uppgötvaðu matargleðina og prófaðu ný sætindi

Þetta er kannski stærsti kosturinn við að hætta í sykri. Það er auðveldlega hægt að borða sykurlaus sætindi og bakkelsi, maður þarf bara aðeins að hafa fyrir því. Það er fullt af uppskriftasíðum, bæði innlendum og erlendum sem eru stútfullar af sykurlausum sætindum sem munu algerlega ýta á réttu hnappana án blóðsykursafleiðinganna. Þetta er vert að prófa svo googlaðu sykurlaus sætindi eða lowcarb sweets og þú ert komin/n með góðan grunn. Ég nota mikið heimasíðu sænsks læknis sem er www.dietdoctor.com en þar er hafsjór af frábærum, sykurlausum uppskriftum.

Gefðu þér tíma og njóttu matarins - já og mundu að tyggja vel

Ef þú ætlar að ná að minnka sykurinn þýðir það að annað sem þú ert að borða þarf að vera í lagi og að setjast niður og njóta matarins er mikilvægt. Það er ekki hægt að bera það saman að borða á hlaupum og borða sitjandi, í rólegheitunum og mögulega í góðum félagsskap. Ég átta mig á því að þú ert að elda, leggja á borð, gefa grislingunum á diskinn og svo þegar þú ert loksins að byrja að borða eru aðrir mögulega búnir svo stundum er þetta bara ómögulegt en planið er að REYNA að setjast niður sem oftast og njóta matarins, já og borða hægt og tyggja vel sem er svo ótrúlega mikilvægt að ég ætla að biðja þig að lesa þessa 7 stuttu punkta um það hvers vegna þú ættir að hægja á þér. 


Vertu orkumeiri og betri útgáfa að sjálfri/sjálfum þér

Það að hætta í sykri mun jafna orkuna hjá þér. Það hætta að vera hæðir og lægðir og þú ættir að upplifa jafnari og mun meiri orku. Þú vaknar ferskari, sefur mögulega betur og hvílist þar með betur og það skilar sér í mörgu sem þú þarft að takast á við yfir daginn í vinnu, skóla eða heima fyrir. Að hætta í sykri þýðir að þú verður orkumeiri og betri útgáfa af sjálfum þér.

Taktu stjórnina og minnkaðu líkur á að þú fáir sjúkdóma

Það er enginn vafi á tengingu matar við sjúkdóma. Við höfum þetta að ótrúlega miklu leyti í hendi okkar hvernig heilsa okkar verður á næstu áratugum og breytingar á mataræði geta snúið við nánast öllum áunnum sjúkdómum. Það myndi auðvitað ekki saka að setja reglulega hreyfingu inn líka því líkaminn þarf á því að halda. Lágmarks sykur og hveitineysla ásamt smá hreyfingu myndi fleyta þér ansi langt inn í komandi áratugi með margfalt betri heilsu .

Tökum ábyrgð og hlustum á doktor Axel

Þetta fjallar ekki um að borða aldrei sykur framar heldur að skapa meðvitund og minnka þannig neysluna. Í raun er þetta spurning um að draga verulega úr sykurneyslunni niður í magn sem líkaminn ræður vel við. Íslendingar eru að borða margfalt það magn sem við ættum að vera að borða en meðalsykurneysla yfir árið er yfir 50 kg sem gerir okkur að Norðurlandameisturum í sykuráti.

Axel F. Sigurðsson, sérfræðingur í hjartasjúkdómum, segir í Líftímanum að algengustu afleiðingar offitu séu áunnin sykursýki, hár blóðþrýstingur, auk hjarta- og æðasjúkdóma en þeir eru algengasta dánarorsökin hér. Hann bendir á að undanfarna tvo áratugi hafi fituneysla hérlendis nokkurn veginn staðið í stað en neysla á sykri og unnum kolvetnum aukist. Því sé ólíklegt að þjóðin hafi fitnað af of mikilli fituneyslu. Skýringanna sé fremur að leita í óhóflegri sykurneyslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál