Svana Lovísa 15 kg léttari

Svana Lovísa hönnuður og bloggari á Svart á hvítu á …
Svana Lovísa hönnuður og bloggari á Svart á hvítu á Trendnet er 15 kílóum léttari.

Svana Lovísa Kristjánsdóttir hönnuður og bloggari á Svart á hvítu á Trendnet hefur verið ótrúlega dugleg að setja sig í fyrsta sæti. Hún byrjaði í fjarþjálfun hjá FitSuccess í byrjun janúar og nú er hún 15 kílóum léttari. 

Hún segist finna alveg gríðarlega mikinn mun. 

„Í dag hefur mér tekist með aðstoð heimsins bestu þjálfara að ná af mér 15 kílóum sem mér þykir vera mikill sigur þó að enn sé langt í land. Þetta er allt gert án öfga og ég borða mjög venjulegan mat sem ég held að sé galdurinn. Ég var nefnilega alltaf að leita að einhverri töfralausn og hlustaði á hvaða ráð frá nánast hverjum sem var til að léttast en aldrei gekk neitt upp. Ég nennti ekki lengur að prófa enn einn kúrinn og að pína mig sjálfa því það er ávísun á stórslys hvað varðar mataræði hjá mér. Ég hef jú prófað þetta allt, nefndu það og ég lofa ykkur að ég hef prófað, en ekkert gengið til lengdar,“ segir Svana Lovísa. 

Hún segist alls ekki vera á neinum kúr og segist borða sama mat og hinir á heimilinu. Hún fær matarplan frá þjálfurunum sínum sem hún fer eftir. 

„Þetta er því bara heilbrigður lífsstíll sem ég fylgi eftir bestu getu. Þetta er þó hörkuvinna en ég sem er algjör sykurfíkill hef nokkrum sinnum fallið ef svo má kalla. Og þarf þá nokkra daga til að komast aftur á skrið. Ég hef átt stundir þar sem ég keyri í ræktina bara til þess eins að keyra beina leið aftur heim því mig langaði ekki inn og ég átti líka móment í byrjun árs þegar ég hreinlega grét þegar ég var komin í æfingaföt og kom mér að sjálfsögðu ekki á þá æfingu. En í stað þess að gefast upp þá reyni ég bara aftur daginn eftir eða þangað til að ég kem mér inn sem gerist alltaf að lokum. Það að breyta lífsstílnum er eitt það erfiðasta andlega sem ég hef gert og suma daga þarf ég á öllum mínum innri krafti að halda til að halda áfram. Ég byrjaði í þjálfuninni í janúar á þessu ári svo þið sjáið að þetta er ekkert á neinum Biggest Looser hraða enda er það ekki það sem ég vil – því ég vil halda árangrinum og ég vil líka að húðin nái að jafna sig. Það hafa komið skipti þar sem ég skilaði inn nánast engum árangri ásamt ljósmyndum af mér á nærfötum alveg eins og mánuðinn á undan, gamla ég hefði hætt í þjálfuninni áður en kæmi að þessari myndatöku en núna bít ég bara á jaxlinn og fæ í staðinn extra gott pepp og jákvæðar athugasemdir frá stelpunum sem gefa auka kraft inn í næsta mánuð. Ég sjálf þrífst á jákvæðni og það að hafa svona gott stuðningsnet frá þremur þjálfurum er það besta sem hefur komið fyrir mig,“ segir hún. 

Þótt vel gangi segist Svana Lovísa alls ekki vera tilbúin að birta fyrir og eftir myndir af sér. Þessi mynd sem fylgir fréttinni var tekin á Santorini á dögunum. 

„Gamla ég hefði fengið áfall ef tekin væri af mér mynd á sundfötum en núna var mér alveg sama. Sem eru viss lífsgæði skal ég segja ykkur – það að vera bara alveg sama hvað öðrum gæti þótt,“ segir hún og hlær. 

Þegar ég spyr Svönu Lovísu hvort hún hafi hætt að borða einhvern ákveðinn mat segir hún svo ekki vera. 

„Ég hef ekki hætt að borða neitt, hefði ég hætt því þá væri ég mögulega búin að ná meiri árangri,“ segir hún og hlær og bætir við:
„En mig langar einfaldlega ekki að þurfa að neita mér að eilífu um það sem mér þykir gott. Súkkulaði er meinhollt fyrir sálina að minnsta kosti og svo fer ég líka á sparidögum í bakarí eða ísbúð og skála við vinkonur mínar við öll góð tilefni. Lífið er alltof stutt til að njóta þess ekki, þetta er bara spurning um að finna eitthvert jafnvægi sem ég er stundum ennþá að leita að,“ segir hún. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál