Heimilið á að næra þá sem þar búa

Hildur Einarsdóttir rýmishönnuður.
Hildur Einarsdóttir rýmishönnuður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég lít svo á að heimilið sé framlenging af einstaklingnum – það á að vera staður sem nærir þig,“ segir Hildur, sem lærði rýmishönnun í Danmarks Designskole og fer í starfi sínu sem rýmishönnuður m.a. sem ráðgjafi inn á heimili fólks og skoðar hvernig það nýtir rýmið. „Sumir vinna t.d. heima og svo skoða ég hvernig hægt er að nota þá muni sem fólk á fyrir og hvernig má láta heimilið vinna sem best með daglegum athöfnum.“ Hildur er ekki mikið fyrir að segja fólki hvaða stíl eigi að velja, enda kveðst hún mest hafa gaman af því þegar fólk leyfi sér að gera það sem því finnst skemmtilegt, óháð tískustraumum. „Mér finnst t.d. gaman að hafa í kringum mig hluti sem eiga sér sögu, því það nærir mig.“

Eldhúsið fékk andlitslyftingu án þess að innréttingunni væri skipt út.
Eldhúsið fékk andlitslyftingu án þess að innréttingunni væri skipt út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur býr á Tómasarhaga, ásamt eiginmanni sínum, Val Hlíðberg, og þremur börnum á aldrinum fjögurra til níu ára í íbúð þar sem gömlum munum og nýjum er blandað saman á hlýlegan og skemmtilegan hátt. Hildur og Valur eru dugleg að taka í gegn þær íbúðir sem þau hafa búið í og reynsla rýmishönnuðar getur þar komið sér vel. Ýmsar lausnir í íbúð þeirra á Tómasarhaganum eru t.a.m. vel úthugsaðar. Björt stofa og borðstofa geymir þannig einnig tölvu- og tónlistarhorn. „Mér finnst gaman að hafa mörg rými í einu og ég nota lýsinguna mikið til að hafa áhrif á notkun okkar á stofunni,“ segir Hildur. „Ég er búin að prufa að hafa þessi rými afmörkuð og vera þá með tölvuna niðri í kjallara, en það fór bara of mikil orka í það og fjölskyldan var of oft aðskilin. Hér geta hins vegar allir verið að gera sitt, en notið þess samt að vera saman.“

Baðherbergið er mjög smekklegt.
Baðherbergið er mjög smekklegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Allir hlutir eiga sinn stað

Voldug hilla í tölvuhorninu er með fjöldann allan af smáum hólfum sem auðveldar tiltekt og tryggir að allir munir eigi sinn stað. „Ég hef látið sérsmíða hillur fyrir marga í gegnum tíðina og það stóð til að gera það hér, en svo datt ég niður á þessa hillu í Tiger, sem hætt var að nota, og hún smellpassar.“ Hilluna segir hún henta sérstaklega vel fyrir börnin. „Það auðveldar börnum að ganga frá þegar þau vita hvar hlutirnir eiga að vera.“

Ýmsir munir á heimili fjölskyldunnar eiga sér sína sögu og þannig er skattholið í stofunni t.d. sveinsstykki föður Vals frá því hann útskrifaðist úr trésmíðinni. Hildur er sömuleiðis lunkin við að finna húsmunum nýtt hlutverk, sem og að nýta hluta af gömlu húsgagni á nýjan hátt. Fæturnir á sjónvarpsskenknum koma þannig úr Góða hirðinum, en hirsluna þar ofan á smíðuðu þau Valur. Þá hefur stór Ikea-kommóða fengið tvöfalt hlutverk í svefnherbergi heimasætunnar, en rúmgrind er komið fyrir ofan á kommóðunni með haganlegum hætti, sem bætir rýmisnotkun herbergisins verulega.

Skápur sem fannst á Bland hefur sömuleiðis verið tekinn í gegn og sómir sér nú vel sem baðskápur. En baðherbergið hefur fengið algjöra yfirhalningu frá því að fjölskyldan flutti í íbúðina fyrir einu og hálfu ári. Staðsetning baðherbergistækja er nú önnur, viðbótarkantur var settur við sturtuna, innbyggður klósettkassi var smíðaður og flísalagt í hólf og gólf.

Horft inn í búrið úr eldhúsinu.
Horft inn í búrið úr eldhúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Léttir á eldhúsinu að hafa ekki öll tækin frammi

Eldhúsið hefur sömuleiðis fengið yfirhalningu, en hér fékk upprunaleg innrétting þó að halda sér. „Þetta er vönduð innrétting, sem er vel smíðuð og þess vegna eldist hún vel,“ segir Hildur. Innréttingin var þó hreinsuð upp og lökkuð hvít að utan en myntugræn að innan, sem skapar skemmtileg skil milli innra og ytra byrðis skápanna. Gömlu höldurnar eru meira að segja enn á sínum stað og getur blaðamaður ekki annað en dáðst að því í hve góðu ásigkomulagi þær eru.

Nýr vaskur var þó settur upp og búrið tekið í gegn, en gamla búrhurðin var m.a. fjarlægð og í hennar stað sett rennihurð úr hvítlökkuðu gleri sem hleypir birtu búrgluggans í gegn og dregur úr skilunum sem gamla hurðin skapaði milli herbergjanna. „Ég breytti alveg búrinu,“ segir Hildur. „Gömlu hillurnar þar voru rifnar út og nýjar settar í staðinn, ásamt vinnubekk sem hentar vel fyrir hrærivélina og önnur eldhústæki. Þetta breytir miklu, því með þessu verður búrið hluti af eldhúsinu og það léttir mikið á eldhúsinu að hafa ekki öll tækin frammi.“

Hildur og Valur létu einnig smíða bekk og borð í eldhúsið. „Ég er mjög hrifinn af bekkjum og ég held raunar að við höfum smíðað bekki inn á flest okkar heimili.“

Eldhúsborðið er úr voldugri heilviðarplötu, sem þeim áskotnaðist frá smið sem þau þekkja. Platan var afgangur frá verkefni sem hann vann að fyrir mörgum árum og gleymdist svo uppi á lofti. „Þegar hann svo loks dró plötuna fram og sýndi okkur þá vildu allir fá hana, en hann stóð fastur á því að hann hefði lofað Hildi plötunni,“ segir Valur. Þau eru ánægð með nýja borðið og Hildur segir það breyta hljóðvistinni í eldhúsinu mikið. „Við vorum áður með gamalt hringlaga eldhúsborð, en eftir að við fengum þetta hætti að bergmála í öllu og það varð miklu meiri ró, sem sýnir hvað efnisval getur skipt miklu máli.“

Og Hildur er hvergi nærri hætt að breyta. „Ég er alltaf að breyta einhverju og mér finnst mikilvægt að fólk sé óhrætt við að breyta. Maður þarf að horfa svolítið gagnrýnið á það hvernig maður nýtir heimilið og hvernig það geti mögulega þjónað manni betur.“ Ekki þurfa heldur allar breytingar að vera stórar og flutningur á einu ljósi geti stundum breytt miklu. „Maður þarf líka að vera samkvæmur sjálfum sér og í staðinn fyrir að reyna að breyta eigin hegðan þá á frekar að breyta rýminu svo það þjóni þér sem best. Það er sömuleiðis gott að hafa í huga að heimilið á að endurspegla þinn karakter, því ef þú ert afslappaður á þínu heimili þá líður þeim sem þangað koma líka vel.“ 

Stigagangurinn er málaður í gráum lit.
Stigagangurinn er málaður í gráum lit. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stofan er falleg.
Stofan er falleg. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Einstakur hurðarhúnn.
Einstakur hurðarhúnn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál