Fólk sækir í vönduð og praktísk húsgögn

Hafsteinn Halldórsson og Agla, fólkið á bak við Happie Furniture.
Hafsteinn Halldórsson og Agla, fólkið á bak við Happie Furniture. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Hafsteinn Helgi og Guðrún Agla, fólkið á bak við fyrirtækið Happie Furniture, sérhæfa sig í að hanna og smíða draumahúsgögn fyrir fólk. Þau segja fólk velja í auknum mæli vönduð, praktísk og einstök húsgögn fram yfir fjöldaframleiddar vörur. 

Hafsteinn og Guðrún Agla, eða Agla eins og hún er kölluð, segja viðskiptavini sína gjarnan koma til þeirra með skýra hugmynd um hvað það vill. „Þetta er oft fólk sem finnst gaman að hanna en kunna kannski ekki að smíða sjálf. Þau vilja fá sérsmíðuð húsgögn, eftir sínu höfðu og upp á millimetra. Fólk kann að meta að þetta séu einstök húsgögn en engin tvö borð eru alveg eins,“ segja þau Hafsteinn og Agla. „Eins finnst fólki gaman að styrkja íslenskt og hefur gaman af því að eiga í viðskiptum við íslensk fyrirtæki og jafnvel fylgjast með húsgagninu sínu verða til.“

Fólk er einnig hrifið af góðu handbragði að sögn Hafsteins. „Margt fólk vill sjá að húsgögnin eru augljóslega ekki fjöldaframleidd, að þau séu ekki gerð í vél sem bjó til 10.000 önnur eins. Fólk kann að meta að það sé ákveðin vinna á bak við húsgagnið,“segir Hafsteinn

Mínímalíski stíllinn minna vinsæll

Aðspurð út í stefnur og strauma í húsgagnatískunni segja þau mínímalískan stíl vera að víkja smá fyrir „industrial“ og grófum stíl. „Já, okkur sýnist að fólk sé er aðeins að færa sig frá þessu mínímalíska og yfir í náttúrulegan við til dæmis. Annars er flott að blanda þessum tveimur stefnum svolítið saman. Við höfum stunum gert það, að vera með grind eða ramma sem er úr þessu einfalda beina stáli, sem er kannski húðað svart. Eitthvað sem er svona módernískt í sér en svo kemur eitthvert listaverk eða handverk, eitthvað gróft og náttúrulegt ofan á, þannig mætast tveir ólíkir þættir. Að sjálfsögðu getum við bara metið þetta út frá eftirspurn hjá okkur, fyrir okkur skiptir mestu máli að verða við ósk kúnnans og því tökum við fagnandi á móti öllum hugmyndum.“

Skemmtilegt borð úr smiðju Happie Furniture.
Skemmtilegt borð úr smiðju Happie Furniture. Eggert Jóhannesson

Agla og Hafsteinn taka eftir að fólk reynir gjarnan að vera praktískt þegar kemur að húsgagnakaupum. Undanfarið hafa þau til dæmis verið að gera stækkanleg borð fyrir fólk sem vill tryggja hámarksnýtingu á þessari fjárfestingu sem sérsmíðað borð er. „Fólk hefur kannski ekki mikið pláss heima hjá sér en vill samt hafa kost á að bjóða mörgum í mat,“ segir Agla. Hafsteinn segir mun fleiri möguleika fylgja því að hafa stækkanlegt borð og það getur auðveldlega verið ævieign. „Þannig getur borðið fylgt þér lengi, sama hvort þú flytjir í minna eða stærra rými.“

Þau Hafsteinn og Agla hafa hingað til einblínt á að hanna og smíða borð fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki en nú er margt nýtt og spennandi fram undan fyrir utan borðin. „Já, við erum búin að vera í smá undirbúningi með barnalínu, barnahúsgögn og fleira. Svo erum við líka að fara af stað með það sem við köllum „happie memories“. Það er ætlað ferðamönnum sem vilja binda minningar sínar í einhvern hlut,“ segir Hafsteinn að lokum. Áhugasamir geta fylgst betur með Happie Furniture á facebook-síðu þeirra, Happie Furniture – húsgögn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál