Mikilvægt að geta heilsað upp á fólk

Steinunn Vala Sigfúsdóttir
Steinunn Vala Sigfúsdóttir Eggert Jóhannesson

Steinunn Vala í Hring eftir Hring er mikil rólyndiskona sem hún segir að komi sér einstaklega vel þegar njóta skal jólanna. Hún leggur mikið upp úr gæðastundum með fjölskyldunni, hvort sem er við jólagjafakaup í miðbænum eða yfir púsli og spilum á jóladag.

„Ég er frekar róleg og þolinmóð manneskja og verð að segja að sá eiginleiki nýtist mér afar vel yfir hátíðarnar, því það er lykilatrið að halda ró sinni þegar maður vill njóta,“ segir Steinunn en sá eiginleiki nýtist jafnframt vel þegar setið er við hönnun og gerð fíngerðra skartgripa eins og hún hannar undir merki Hring eftir Hring.

„Eins og til dæmis á rölti í miðbænum við gjafakaup. Þá finnst mér mikilvægt að hafa tíma til að heilsa upp á fólkið sem verður á vegi mínum og óska þeim gleðilegra jóla. Biðlund og umburðalyndi í verslunum og á veitingahúsum er lykilatriði svo gleðin haldist við völd. Á svona rölti hellist yfir mig þessi sanna jólatilfinning sem ég man úr æsku og er alltaf að reyna að kalla fram aftur. Sérstaklega þegar ég finn daufan skötufnyk af fólkinu sem ég mæti. Þá veit ég að jólin eru að koma.“


Ertu með ákveðið þema í skreytingum og hverjar eru helstu áherslurnar þetta
árið?

„Þetta árið ákvað ég að taka lítið upp af jólaskrautinu okkar enda þykja mér grenigreinar, kertaljós og falleg jólalög færa heimilið mitt í hátíðlegan búning. Ég sótti þó jólakassana í skúrinn á aðventunni. Tók upp úr þeim örfáa, uppáhalds hluti og jólaljósin sem komin eru í glugga. Ég ætlaði mér að halda áfram að skreyta síðar en það vék alltaf fyrir öðru, mig langaði til dæmis að baka og skreyta piparkökur með fólkinu mínu frekar en taka upp allt skrautið. Mér finnst einstaklega fallegt og hátíðlegt heima hjá mér þrátt fyrir þetta og mæli með þessu fyrir fólk sem upplifir sig í tímaþröng.“

Tekurðu húsið í gegn fyrir jólin?

„Nei, það geri ég ekki, en ég hef fínt hjá mér og hreint. Jólin koma til mín og hafa hingað til alltaf verið hátíðleg, hvar sem ég hef verið og hvort sem allt er 100% eða ekki.“


Hvernig er aðfangadagur hjá þér?

„Aðfangadagur byrjar á morgunkaffi hjá Önnu föðursystur minni en hún á afmæli á aðfangadag. Þar kemur föðurfólk mitt saman og skiptist á gjöfum. Mér þykir mjög notalegt að hitta fólkið mitt hjá henni og fá rjúkandi heitt súkkulaði og ljúffengan morgunverð. Eftir hennar boð förum við heim og hefjumst handa við matreiðsluna en sósan sem fylgir rjúpunum tekur lengstan tíma og fyllir húsið sönnum aðfangadagsilmi. Yfir daginn detta vinir og vandamenn inn með gjafir og kort. Sumir staldra við. Aðrir kasta inn kveðju. Mér þykir æðislegt að fá innlitin og á sjálf góðar minningar frá aðfangadegi þegar það féll í hlut okkar systkinanna að keyra út gjafirnar. Þá var notalegt að skemmtilegt að reka inn nefið hjá fólki og fá smjörþefinn af jólum þeirra, bíltúrinn á milli staða var ekki síðri.“

Hvað er í jólamatinn?

„Rjúpur og ljúffengt meðlæti sem við berum aðeins fram á borð á jólunum. Rjúpurnar snöggsteikjum við og höfum með henni sósu sem mikið er lagt í! Meðlætið eru til dæmis Bailey's epli, brúnaðar kartöflur og Waldorf salat.“

Hvað langar þig helst í í jólagjöf?

„Mig langar helst í bók eftir íslenskan rithöfund eða í góðri íslenskri þýðingu.
Ég hef lesið mikið á ensku síðustu ár og horft til annarra landa en finn hjá mér síaukna þörf til að lesa á íslensku og tengja aftur meira við íslensku ræturnar.“

Ótrúlega falleg hálsmen úr smiðju Hring eftir Hring.
Ótrúlega falleg hálsmen úr smiðju Hring eftir Hring. Eggert Jóhannesson
Hringar og hálsmen eftir Steinunni.
Hringar og hálsmen eftir Steinunni. Eggert Jóhannesson
Vinnustofa Hring eftir Hring er í Auðbrekku 10 í Kópavogi …
Vinnustofa Hring eftir Hring er í Auðbrekku 10 í Kópavogi en þar er hægt að skoða vöruúrvalið og kaupa fallegt skart. Eggert Jóhannesson
Vinnustofa Steinunnar í Auðbrekku 10.
Vinnustofa Steinunnar í Auðbrekku 10. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál