Ætlar að elda fyrir minna en 30.000 á viku

Eygló Harðardóttir ætlar að gera 48 matseðla árið 2013 og …
Eygló Harðardóttir ætlar að gera 48 matseðla árið 2013 og vera hagsýn húsmóðir sem eldar nánast allt frá grunni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þingkonan Eygló Harðardóttir ætlar ekki að hlaupa maraþon 2013 heldur ætlar hún að útbúa 48 vikumatseðla. Smartland mun fylgjast með henni.

„Nýtt ár er hafið. Liðin ár hafa áramótaheitin verið margvísleg. Leggja af, kaupa líkamsræktarkort, vinna minna, hlaupa ½ maraþon, leggja af, sinna fjölskyldunni meira. Efndirnar hafa verið jafn fjölbreytilegar og heitin sjálf. Nú er runnið upp nýtt ár. Ný tækifæri og nýtt áramótaheit og þetta blogg. Markmiðið með blogginu er að setja saman matseðla með 7 kvöldmáltíðum fyrir allt árið 2013. Til að gera þetta skemmtilegra má matseðilinn ekki kosta meira en 20.000 kr. á viku og heildarmatarinnkaupin ekki vera meiri en 30.000 kr. á viku. Mér fannst þetta mjög metnaðarfullt þar til ég fletti upp neysluviðmiðunum fyrir fjögurra manna fjölskyldu hjá velferðarráðuneytinu. Þar segir að neysluviðmiðin eru 117.400 kr. á mánuði fyrir mat, drykkjavörur og aðra dagvöru,“ segir Eygló Harðardóttir. Hún segir að eiginmaður hennar hafi spurt hvers vegna í ósköpunum hana langaði að gera þetta. 

„Til að spara pening, verða svona hagsýn húsmóðir, skrifa meira og betur, borða hollari mat og sinna einni af stóru ástríðunum í lífinu.“

Eftir þessum reglum ætlar Eygló að fara:

  • 48 matseðlar. Ég reikna með fjórum vikum í frí þar sem við gerum okkar besta til að vera lélegar eftirlíkingar af Rómverjum. Svall og svínarí er enda nauðsynlegt fyrir sálartetrið.
  • Einn matseðill á viku. Plús innkaupalista, helst flokkaða. Ég hreint og beint elska góða innkaupalista. Þeir stytta tímann í búðinni, draga úr líkum á skyndikaupum og spara pening.  Rannsóknir sýna víst að eftir því sem við eyðum lengri tíma í búð, kaupum við meira.
  • Kassakvittanir verða birtar vikulega. Ég veit að traust til stjórnmálamanna er frekar takmarkað og því eðlilegt að gera kröfur um sannanir.
  • Sjö kvöldmáltíðir. Hljómar nánast eins og síðustu kvöldmáltíðirnar. Við borðum okkar aðalmáltíð á kvöldin þannig að matseðlarnir verða að endurspegla það, sem og tímaleysið. Allavega ein grænmetismáltíð (ekkert kjöt eða ost). Verð að vera með súpu einu sinni í viku og fisk einu sinni til tvisvar. Plús eins mikið íslenskt, beint frá býli, heimagert og ég hef efni á innan rammans.

Hægt verður að fylgjast með blogginu hennar Eyglóar á Smartlandi.

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert