c

Pistlar:

6. desember 2017 kl. 15:13

Edda Jónsdóttir (eddajonsdottir.blog.is)

Hvaða jólatýpa ert þú?

Í aðdraganda jólanna kemur kauphegðun okkar oft berlega í ljós. Á meðan skipulagsglaðir eru í essinu sínu, þurfa aðrir að beita sig hörðu til að standast væntingar. 

Það er áhugavert að staldra við og skoða eigin mörk í samhengi við peninga og þá sér í lagi á þessum árstíma, þegar peningabuddan tæmist hraðar en ella.

Frá sjónarhóli fræðanna um peningapersónugerðirnar, glímum við öll við einhvers konar peningaáskoranir auk þess sem gjafir hverrar og einnar týpu hafa ákveðið fram að færa um jólin. Kannastu við sjálfa/n þig og fólkið í kringum þig í einhverjum af eftirfarandi lýsingum?

Nærandinn – kærleiksboðberi jólanna

Jólin eru mjög sérstakur tími fyrir Nærandann. Þá gefst ástæða til að leyfa sér að dekra við fólkið sitt. Áskorunin er sú að Nærandinn á það til að fara yfir strikið. Eyða of miklu í gjafir og mat og hlaupa svo um til að hjálpa öðrum, jafnvel óumbeðinn. Þreyta og eftirsjá geta því einkennt síðustu daga ársins hjá Nærandanum.

Því er skynsamlegt að útbúa fjárhags- og tímaáætlun fyrir jólin og standa við hana. Nærandanum er einnig hollt að setja sér mörk og muna eftir að næra sig um jólin. Kaupa jafnvel eina vel valda gjöf handa sjálfum sér?

Safnarinn – færir okkur jólasjóðinn

Safnarinn hefur sennilega búið til fjárhagsáætlun fyrir jólin í september. Áskorunin fyrir Safnarann er að njóta þess að eyða peningunum sem þú hefur ákveðið að eyða í jólin. Jólin geta valdið Safnaranum kvíða, því þrátt fyrir að hann sé með fjárhagsáætlun, getur verið stressandi að stíga skrefið og eyða peningunum.

Í stað þess að upplifa streitu þegar upphæðin sem er ætluð til jóla fer minnkandi, geturðu beint sjónum að því í hvað peningarnir fara, nefnilega í að gleðja aðra. Beindu sjónum að gjöfunum sem þú verð peningum í að kaupa til að gleðja þá sem þú elskar.

Frumkvöðullinn – færir okkur jólastuðið

Frumkvöðlar elska að taka áhættu og á jólum get ég ímyndað mér að það þýði að kaupa gjafir á síðustu stundu og þá oft sérkennilegar gjafir. Þetta mynstur hefur í för með sér að þeir eiga það til að eyða allt of miklu í gjafir sem viðtakendur kunna jafnvel ekki að meta, þrátt fyrir að þær séu minnistæðar.

Frumkvöðullinn er innri uppreisnarseggurinn með málstað og jólin með öllum sínum hefðum geta virkað leiðinleg fyrir hinn nýjungagjarna Frumkvöðul. Þá er annað hvort að láta lítið fyrir sér fara eða að hrista duglega upp í hlutunum. Hvorugur valkosturinn er auðveldur fyrir fólkið sem þú elskar.

Hvers vegna ekki að setja þér mörk kæri Frumkvöðull og gefa þér einn dag til að finna skynsamlegar gjafir fyrir þá sem þú elskar. Ég skora á þig!

Rómantíkerinn – laðar fram fegurð jólanna

Rómantíkerinn elskar jólin því hún elskar að njóta lífsins. Fallegt heimili er hennar aðalsmerki og hún býr yfir þeirri trú að peningar séu endalaus uppspretta. Rómantíkerinn á það til að nota umtalsverðar fjárhæðir í jólahaldið og þar er hvergi til sparað!

Það er ágætis ráð fyrir Rómantíkerinn að skoða banka- eða kreditkortayfirlitið frá því í fyrra til að átta sig á kostnaði við jólahaldið. Í kjölfarið er gott að gera upp við sig hvort þetta sé sú upphæð sem þú vilt nota í ár eða hvort þú viljir draga saman seglin – nú eða bæta í ef svo ber undir. Svo geturðu notað einstaka hæfileika þína til að undirbúa dásamleg jól fyrir þig og þá sem þú elskar. Skoraðu á þig að finna stórkostlegar gjafir en haltu þig við fyrirframgefna upphæð.

Tengiliðurinn – sameinar fólk á jólunum

Tengiliðurinn er sú peningapersónugerð sem er minnst tengd peningum. Hann er í essinu sínu þegar fólkið hans er samankomið til að njóta augnabliksins.

Tengiliðurinn finnur sig ekki knúinn til að halda í við lífstíl annarra og er því ekkert að stressa sig í aðdraganda jólanna. Hann er því líklegur til að fara á stjá á síðustu stundu til að kaupa gjafir og annað til jólanna. Sú tilhneyging eykur líkurnar á því að það sem hann ætlaði sér að kaupa sé uppselt og hann finni sig knúinn til að eyða meira en hann ætlaði til að bjarga sér fyrir horn.

Tímastjórnun og fjárhagsáætlun gætu hjálpað Tengiliðnum að vera við stjórnvölinn. Þannig skapast einnig einstakt tækifæri til að bæta sambandið við peninga.

Dægurstjarnan – færir okkur jólafögnuðinn

Dægurstjarnan nýtur sín um jólin. Á jólum gefst tækifæri til raunverulegrar sviðsetningar. Tilkomumiklar skreytingar, stórkostlegar gjafir og glæsilegur fatnaður. Jólin bjóða svo sannarlega upp á að öllu sé tjaldað til.

Jafnvel öguðustu Dægurstjörnur eiga það til að eyða of miklu í aðdraganda jólanna. En besta leiðin til að koma í veg fyrir hvatvísa eyðslu er að setja sér tímamörk og ákveða upphæðina sem nota má fyrirfram. Eitt ráð er að sækja um fyrirframgreitt kreditkort eða leggja ákveðna upphæð inn á sérstakan jólareikning. Einnig getur verið gott að velja dag sem er síðasti dagurinn sem þú mátt kaupa fyrir jólin.

Stjórnandinn – kemur jólunum heim og saman

Stjórnandinn er líklega með bæði framkvæmda- og fjárhagsáætlun í aðdraganda jólanna og leggur hart að sér. Vandamálið er hins vegar að álagið sem hlýst af jólaundirbúningnum getur skyggt á sjálfa gleði jólanna.

Stjórnandinn er stórtækur en þegar hann er stressaður getur innri einræðisherrann skotið upp kollinum. En hvernig væri að sleppa tökunum á stjórnseminni og hugsa um jólin sem kvikmyndaframleiðslu þar sem allar persónur og leikendur fá að njóta sín og taka þátt? Líka þú Stjórnandi!

Alkemistinn – færir okkur anda jólanna

Alkemistar eiga oft í ástar/haturs sambandi við peninga. Þetta ástar/haturs samband getur yfirfærst á samband Alkemistans við jólin.

Kjarni jólanna getur svo auðveldlega tapast í verslunaræðinu og Alkemistinn tekur þetta nærri sér. Hættan er sú að Alkemistar sjái eftir peningunum sem þeir upplifa að þeir þurfi að eyða til að valda ekki ástvinum sínum vonbrigðum.

En kæri Alkemisti - hvernig væri að líta á peningana sem þú eyðir um jólin sem tækifæri til að glæða líf þeirra sem þú elskar töfrum?

Hvort sem þú finnur þig í einni eða fleiri þessarra persónugerða í aðdraganda jólanna, er um að gera að hafa húmor, setja sjálfum sér mörk og muna að njóta!

Ég vil nota tækifærið og óska lesendum Smartlandsins ánægjulegrar aðventu og gleðilegra jóla.

Edda Jónsdóttir

Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Meira