c

Pistlar:

23. júlí 2015 kl. 13:59

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Mikilvægi hins logandi meltingarelds


Frumefnin í Ayurveda.Fátt hefur verið meira í umræðunni í heilsugeiranum þetta sumarið en meltingin. Ástæðuna má sjálfsagt rekja til margs en þó aðallega tímamótaviðtals Rásar 2 við Sigurjón Vilbergsson meltingalækni og umkvörtunnar æ fleiri sem kjósa heildræna nálgun gegn lélegri meltingu. Í þessu ljósi er áhugavert að horfa á meltinguna með augum elstu heilbrigðisvísinda veraldar, Ayurveda, eða indversku lífsvísindanna.

Sigurjón sagði í viðtalinu spennandi að vera magalækni í dag því margt sé að gerast í fræðunum. En um leið “skammaði” hann kollega sína og finnst leiðinlegt að heyra frá þeim að mataræði skipti ekki máli. Sigurjón hafði líka á orði, það sem margir í “óhefbundna heilsugeiranum” hafa talað fyrir um lengi, sem er mikilvægi þess að borða hreina og óunna fæðu og spyrja gagnrýnna spurninga um hvar og hvernig er maturinn okkar er búinn til. Það kemur heim og saman við hugsunina að baki Ayurveda. Viðtalið við Sigurjón má hlusta á í heild sinni hér.

Í Ayurveda fræðunum, sem eiga vaxandi fylgi að fagna (og nýstofnað ráðuneyti á Indlandi) er horft með heildrænum hætti á manneskjuna. Áhugavert er að geta þess að„Ayur“ þýðir „líf“ og „veda“ þýðir „vísindi eða þekking“. En hugtakið „ayu“ felur í sér fjóra undirstöðuþætti eða samþættingu hugar, líkama, tilfininga og sálar. Í þessum stórmerku fræðum er litið á meltingareldinn sem uppsprettu lífsins og sagt er að enginn maður verði eldri en meltingareldur hans. Í Ayurveda er orðið “agni” notað um hinn logandi meltingareld. Hann nær þó ekki eingöngu til meltingarinnar heldur alls þess sem við þurfum að vinna úr í lífinu, þ.e. úr mat; reynslu, minningum og annarri upplifun sem fer í gegnum skynfæri okkar. Ekki nóg með að meltingareldurinn sjái um að vinna næringu úr fæðunni og lífinu heldur líka að brenna burtu því sem við þurfum ekki á að halda (agni er rót enska orðsins ignite sem þýðir kveikja).

Ef meltingareldur okkar logar glatt, eigum við auðvelt með að melta fæðu og tileinka okkur öll lífsins gæði. En ef meltingareldurinn er daufur eigum við erfttt með að melta fæðuna og upp safnast það sem kallast “ama” eða óþarfi/eitur sem setst að í frumum okkar.

Í Ayurveda segir að sterkur melingareldur leiði til góðrar heilsu á öllum sviðum. Á meðan uppsöfnun ama hægi á okkur og valdi hnignun líkama og sálar sem á endanum geti leitt til sjúkdóma. Þá er minnst á að vanhæfni til að vinna úr tilfinningum skilji eftir sig jafn mikið af “eitri” og léleg melting. Litið er svo á að innibyrgð reiði, óunnin sorg og langvarandi sektarkennd séu “ómeltar” tilfinningar sem eru jafnvel mun meira lamandi og “eitraðri” en ómeltur matur. Úr því megi vinna m.a. í gegnum jógafræðin sem eru einn angi Ayurveda.

Ojas: hunangslögur lífsins

Ef við þráum umfram allt góða heilsu fer best á því að eyða “ama” eða eiturefnum úr líkamanum og einbeita okkur að því að framleiða það sem kallað er ojas, sem vísar til lífsorkunnar. Ojas er orð úr Sanskrít og þýðir kraftur/þróttur. Ojas er hreint og fíngert efni/orka sem kemur úr fæðu okkar þegar við höfum melt hana og allt er eins og það á að vera. Ojas orkan fer hringrás um líkamann, vefi okkar og hjarta, og eflir þrótt, gefur skýrleika og jafnvægisstillir tilfinningar okkar. Í stuttu máli, þegar líkaminn framleiðir ojas – stundum kallaður hunangslögur lífsins - finnum við til sælu. Þá erum við að fá þá næringu sem við þurfum á að halda.

Til þess að komast í tengsl við ojasið í okkur mælir Ayurveda með hreinni fæðu og það sem kallað er sattvískri (jákvæðri og nærandi). Mest sattvíski maturinn er t.d. sesam, hunang, heil hrísgrjón, ávextir og grænmeti og líka lífrænar mjólkurafurður. Ennfremur er ghee, eða smjörolía hátt skrifað í Ayurveda, sem og allar lækningajurtirnar (en auðvitað margt annað líka). Öllu erfiðara fyrir líkamann er að vinna úr kjöti og fiski, en þó einkum mikið og illa unnum ónáttúrulegum mat. Fæða sem er of sölt eða súr, niðursoðin og frosin geymir ekki eins mikla næringarorku. Og talað er um að áfengi dragi úr lífsorkunni og geti jafnvel eyðilagt hana.

Þegar heilbrigt ojas flæðir um líkama okkar vöknum endurnærð, húðin ljómar, tungan er hrein og bleik, við finnum karftinn (ljósið) innra með okkur á öllum sviðum, og hugsunin er skýr, meltingin sterk og við ilmum.

Merki um ama, hökt í líkama okkar, sem er sannarlega til ama, eru andremma, skán á tungu, lítil matarlyst, viðkvæm melting, stífni í líkama og sál, pirringur, þyngsli, þreyta, óskýrleiki, orkuleysi og þegar fólk er oft lasið.

Að næra öll skilningavit

Ayurveda mælir með nokkrum einföldum ráðum til njóta matar betur en við mörg hver gerum. Þar sem ojasið er fíngerð og viðkvæm orka þurfum við að búa til nærandi andrúmloft í kringum matatríma okkar og nota öll skilningavit. Bragð, ilm, sjón, hljóð og snertingu. Til að vera í góðu jafnvægi. Hér eru góð ráð:

Alls ekki borða á hlaupum, í bíl, fyrir framan sjónvarp. Borðaðu meðvitað.

Ekki borða þegar þér líður illa eða ert stressuð/aður

Sestu niður og njóttu matarins.

Borðaðu bara þegar þú er svöng/svangur.

Hvorki borða of hratt né of hægt.

Borðaðu hæfilega blöndu af hráfæði og heitum mat.

Ekki drekka kalda drykki með mat. Heldur volga fyrir eða eftir mat.

Hafðu sérhverja máltíð ALLTAF setta saman úr öllum sex bragðgæðunum (sæta, súra, herpandi, beiska, sterka og salta), sjá hér grein um bragðæði Ayurveda.

Viðbótarfróðleikur:

Til eru sögulegar heimildir um Ayurveda í fornum ritum sem kölluð eru einu nafni Vedaritin. Í einu þeirra, Rig Veda sem er talin rituð fyrir meira en sex þúsund árum, er að finna yfir 60 þúsund lækningaaðferðir við hinum ýmsu sjúkdómum og kvillum. Ayurveda fræðin eru samt talin vera mun eldri og það er ekki litið á þau eingöngu sem lækningakerfi, heldur sem „vísindi lífsins“. Við erum öll hluti af alheiminum og eins og dýr og plöntur eigum við að lúta lögmálum alheimsins.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira