c

Pistlar:

24. október 2016 kl. 15:13

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Hvar er orkustefnan?

Það hefur vakið nokkra undrun hjá undirrituðum að nánast undantekningarlaust er ekki að finna neina heildstæða stefnu í orkumálum þjóðarinnar hjá þeim flokkum sem eru að bjóða fram í komandi alþingiskosningum. 

Jú jú einhverjir eru á því að skoða eigi hagkvæmni þess að flytja út orku þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að það geti verið arðbært. Einhverjir leggjast gegn þessum hugmyndum. En mikið lengra nær það ekki. 

Ekkert bólar á heildstæðri orkustefnu fyrir landið. Það er þekkt að raforkuverð er talið hafa umtalsverð áhrif á hagvöxt og uppgang. Hagkvæmt verð á raforku er hvati til nýsköpunar og uppbyggingar. Með sama hætti liggur fyrir að hátt orkuverð hefur öfug áhrif.  Þolmörk gagnvart verðhækkunum raforku hér á landi liggja ekki fyrir, en reikna má með ruðningsáhrifum og hægari uppbyggingu almenns iðnaðar auk umtalsverðra áhrifa á nýsköpun. Með háu orkuverði er viðbúið er að atvinnugreinar eins og t.d. ræktun með lýsingu í gróðurhúsum muni draga saman seglin og svo kann að vera með fleiri orkuríkar framleiðslugreinar.

Heimilin í landinu eru svo háð raforku að þau borga hvað sem er fyrir hana, en hækkun kann að raska búsetuskilyrðum. Lágur orkureikningur hér heima á Fróni er án nokkurs vafa eitt af því sem dregur brottflutta Íslendinga aftur heim á klakann. Er lykilatriði í samkeppnishæfni landsins þegar ungt fólk vegur og metur kosti og galla þess að snúa heim á ný að námi loknu. 

Núverandi stjórnendur Landsvirkjunar hafa formað og eru að innleiða nýja stefnu fyrir félagið sem engin pólitíkus virðist þora að tjá sig um. Landsvirkjun með forstjórann í fararbroddi hefur opinberlega sagst ætla að bæta lífskjör í landinu með því að greiða ríkissjóði 10 til 20 milljarða í arðgreiðslur árlega. Hljómar ágætlega en þegar nánar er skoðað kemur í ljós að Landsvirkjun stefnir að því að álögur á heimili landsins vegna raforkukaupa hækki um tugi milljarða árlega. Þetta gerist vegna hugmynda fyrirtækisins um lagningu raforkusæstrengs sem mundi hafa í för með sér umtalsverðar hækkanir á orkureikning hvers einasta heimilis og fyrirtækis í landinu. Þannig á að hverfa frá þeirri stefnu að láta stóriðjuna á Íslandi greiða fyrir uppbyggingu raforkukerfisins og tryggja neytendum þannig besta mögulega verð á hverjum tíma. Skilvirkast væri líkast til að leggja öll áform um beinan útflutning raforku á hilluna. Þannig gefst svigrúm til þess að lækka enn frekar raforkuverðið til heimila, landbúnaðar og iðnaðar á almennum gjaldskrám.

Jóhanna og Steingrímur gerðu ekkert til þess að stöðva þessa þróun og núverandi stjórnarflokkar hafa ekki heldur beitt sér í þessu máli. Heldur flotið sofandi áfram stefnulaust án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum þeirrar alþjóðastefnu sem verið er að innleiða hér á raforkumarkaði.  

Stærð auðlindarinnar er takmörkuð, sérstaklega af tveim kostnaðarþáttum, sem eru verndargildi og virkjunarkostnaður. Ef helmingur biðflokks í rammaáætlun fer í nýtingarflokk eigum við ekki eftir að virkja nema um 11 TWh/ár af auðlindinni, sem er um helmingur núverandi raforkunotkunar á landinu. Sú tálsýn að hér sé orka í óþrjótandi mæli er því ekki rétt. 

Það er því sérlega mikilvægt að Alþingi og eða ríkisstjórn setji fram eigendastefnu fyrir fyrirtækið Landsvirkjun og marki orkustefnu fyrir landið til lengri tíma. Af þeim sökum er auglýst eftir orkustefnu þeirra framboða sem hafa gefið kost á sér í komandi Alþingiskosningum. 

 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur