„Ég elska 50 gráa skugga“

Sif Jóhannsdóttir skrifar frá Kaliforníu.
Sif Jóhannsdóttir skrifar frá Kaliforníu.

„ÉG ELSKA 50 Gráa skugga. Sorrí. Það er bara þannig. Ég veit að það þykir ekkert sérstaklega smart en maður verður að standa með sjálfum sér. Ástæðurnar eru margar. Við skulum ekki gleyma því að ég starfaði við bókaútgáfu. Var sú sem sá um að bjóða í herlegheitin fyrir hönd Forlagsins þegar bækurnar voru að tröllríða öllum metsölulistum. Ég hafði ekki einu sinni lesið bækurnar en var samt að bjóða verulegar upphæðir í þýðingarréttinn. Hvernig var annað hægt? Þetta var algjört fenómen, af sömu stærðargráðu og Harry Potter. Bókaútgefendur og bóksalar um allan heim elska þessar bækur. Ástæðan er einföld. Þær fengu fólk sem venjulega myndi ekki versla í bókabúðum til að koma þangað og kaupa þrjár heilar bækur. Og við skulum hafa það á hreinu að þessar bækur eru engin þunnildi. Við erum að tala um fólk sem hafði ekki lesið síðan í skóla sem las allt í einu upp til agna næstum 1.500 blaðsíður. Það segir manni ýmislegt,“ segir Sif Jóhannsdóttir sem skrifar frá Kaliforníu.

„Engar áhyggjur. Ég fór ekki varhluta af því að þær hefðu svo sannarlega getað verið betur skrifaðar. Miklu betur. Og það var margt í bókinni sem vakti spurningar. En ég skrifaði það allt saman á þá staðreynd að um væri að ræða fantasíu höfundar. Og það er sjaldan sem fantasíur rata nánast óritskoðaðar á prent. Ef þið vitið ekki baksöguna þá er hún sú að E.L. James var mikill aðdáandi Vampírubókanna, Twilight, eftir Stephanie Meyer. En Meyer er mormóni að trú sem hafði heilmikil áhrif á skrif hennar, til dæmis með því að Bella og Edward sváfu ekki saman fyrr en í síðustu bókinni, þegar þau voru búin að gifta sig auðvitað, þrátt fyrir kynferðislega spennu sem sprengdi alla jarðskjálftamæla. Þetta fannst James erfitt að eiga við, svo hún bjó til hliðarveruleika, með Ana og Christian, sem voru byggð á söguhetjum Meyer nema í stað þess að bíða eftir hjónabandi tók hún þetta upp um þó nokkur stig! Herlegheitin birti hún fyrst á aðdáendasíðu Twilight-bókanna og þaðan fór þetta að vinda upp á sig. Þetta er sumsé fantasía hennar um það sem hefði getað orðið í Twilight ef höfundurinn hefði ekki verið mormóni.“

Sif segist hafa orðið svolítið áhyggjufull þegar hún hóf lesturinn á 50 gráum skuggum.

„Allavega. Þegar ég var búin að ganga frá útgáfusamningnum um þýðingarréttinn settist ég loks niður til að lesa fyrstu bókina, ég varð jú að vita hvað við vorum að fara að gefa út. Ég varð strax frekar áhyggjufull, bækurnar voru ekki með því betra sem hefur verið skrifað hvað varðar stíl og uppbyggingu. En áður en ég vissi af mátti ég ekki vera að því að velta mér upp úr þessu lengur. Ég var komin á bólakaf í svakalega djúsí ástarsögu. Það leið ekki á löngu áður en ég hætti að nenna að lesa lýsingar af því þegar þau voru að gera það, það var bara  þreytandi, hún bítur í vörina á sér, hann verður æstur, klípur í geirvörturnar á henni og hún fær það. Þetta var skemmtilegt í fyrstu 2 skiptin en þegar þetta var búið að gerast 100 sinnum þá skipti það mig engu. Nei, það var ekki kynlífið sem hélt mér hugfanginni. Það var rósrauða hugmyndin um valdamikinn, myndarlegan mann sem sýnir venjulegri stúlku áhuga. Svo mjög meira að segja að hann brýtur allar sínar persónulegu reglur fyrir hana og henni tekst það sem svo mörgum konum tókst ekki áður, að breyta honum, gera hann að betri manni. Í alvöru. Hver hefur ekki orðið skotin í bad boy með von í hjarta um að hafa það sem til þarf til að gera hann að frambærilegum manni? Og þarna var þetta komið á prent, hann, erkimynd vonda stráksins og hún svo saklaus. Fullkomið. Eða ókei, ekki fullkomið en þetta dugði. Ég las allar bækurnar með ánægju. En ég hefði líka getað fókuserað á aðra hluti, stjórnsemina í honum, andlega ofbeldið og allt það. En er þá eitthvað að mér? Ég bara missti sjónar á því fyrir ástina. Allt fyrir ástina!?! Hvað er að mér? Er þetta af því ég hef séð of margar Disney-myndir? Eða mögulega af því að ég lék mér aðallega með Barbie sem krakki?“

Sif bendir á að bækur E.L. James hafi verið gagnrýndar harðlega.

„Síðan ég las bækurnar hefur mikið verið um þær skrifað, þær gagnrýndar harðlega, ekki síst fyrir þá mynd sem dregin er upp af þessu sambandi sem, ef það er skoðað nánar, er mjög ofbeldisfullt og rangt á marga vegu. Ég hef því farið leynt með hrifningu mína á bókunum og sagði fáum frá því þegar ég rauk í bíó á frumsýningarhelginni. Ég var næstum með samviskubit, leið eins og ég væri að svíkja kynsystur mínar. En ég gaf skít í það og fór nú samt. Myndin var allt sem ég vonaði að hún yrði og svo miklu meira. Sorrí með mig. En hún var æði. Með styttingu yfir í bíómynd var allt þetta innra samtal sem Ana á við sig í bókunum sem var oftar en ekki frekar vandræðalegt með tali um sína innri gyðju horfið. Horfin var líka þráhyggja hans um að hún borðaði og endalaus samtöl þeirra um það ekki til staðar. Og svo voru þau bara drullu sexí. Og ástarsagan hélt öllum sínum sjarma. Þarna var hann, ríki prinsinn á sportbílnum, til í að taka þessa hversdagslegu stelpu inn í ævintýraheiminn sinn. Ég skil afstöðu margra um að þarna sé verið að hampa ofbeldi gegn konum. En þetta er bók/bíómynd og er það ekki stundum svo að þar sé hampað hlutum sem eru siðferðislega rangir? Hvað um Wolf of Wall Street? Er þar ekki verið að hampa öllum hryllingnum?“

Hún játar að hún elski þessa mynd.

„Jæja. Þá er ég búin að segja það. Ég heiti Sif og ég elska 50 gráa skugga. Plís samt ekki dæma mig of hart. Ég sver, ég les líka bækur sem hafa hlotið stór verðlaun í bókmenntaheiminum, íslenskum og erlendum. Og ég er góð við börnin mín. Ég svík ekki undan skatti og borða mikið af grænmeti og ávöxtum. Ég er í alvörunni góð manneskja!!!“

Brot úr myndinni 50 gráir skuggar.
Brot úr myndinni 50 gráir skuggar. Ljósmynd/Youtube.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál